6.3.2013 | 13:46
Tvær góðar bækur til að lesa í flugvélum
Ég þurfti vegna alþjóðlegs rannsóknarsamstarfs míns, meðal annars í Bretlandi og Brasilíu, að fara á dögunum í langar flugferðir. Ég keypti á Keflavíkurflugvelli á leiðinni utan bókina Iron Curtain: The Crushing of Eastern Europe (Járntjaldið: Austur-Evrópa troðin í svaðið) eftir bandaríska sagnfræðinginn og blaðamanninn Anne Applebaum. Þetta er fjörlega skrifuð og fróðleg bók um það, hvernig kommúnistar lögðu undir sig löndin í Mið- og Austur-Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld. Suma kommúnistana kannaðist ég við, enda koma þeir nokkrir fyrir í bók minni, Íslenskum kommúnistum 19181998, til dæmis Ungverjarnir Mihaly Farkas og Matyas Rakosi. Mæli ég hiklaust með þessari bók, og hefur hún hlotið góða dóma, meðal annars í New York Times og Daily Telegraph.
Ég hafði áður lesið hina frábæru bók Applebaums, Gulag, svo að mér kom ekki á óvart, að þetta nýja verk hennar væri gott. En á Heathrow-flugvelli á leiðinni heim keypti ég af rælni skáldsögu eftir höfund, sem ég þekkti ekki til áður, Irène Némirovsky. Heitir hún í enskri þýðingu French suite (Frönsk svíta) og er um örlög ýmissa einstaklinga í Frakklandi eftir hernám Þjóðverja 1940. Mér fannst þetta í fæstum orðum stórkostleg bók, og gat ég ekki lagt hana frá mér í flugvélinni. Némirovsky tekst að vekja áhuga á söguhetjum sínum og lýsa aðstæðum svo vel, að þær verða ljóslifandi fyrir lesandanum. Hún var rússneskur gyðingur, sem hafði flust ásamt fjölskyldu sinni til Frakklands eftir byltingu bolsévíka. Hún hafði aðeins lokið tveimur af fimm hlutum skáldsögu sinnar, þegar hún var tekin höndum og send til Auschwitz, þar sem ævi hennar lauk í gasklefum nasista í ágúst 1942. Handritið að skáldsögunni fannst miklu síðar, og hefur bókin selst vel og hlotið góða dóma, meðal annars í New York Times og Guardian.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook