3.3.2013 | 15:17
Ritdómur minn um bók Ha-Joon Chang
[Ég birti á dögunum ritdóm í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu um þýðingu á bókinni 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá eftir Ha-Joon Chang. Nálgast má dóminn á heimasíðu tímaritsins og hlaða honum niður sem pdf-skjali. En hér er textinn líka undir fyrirsögninni 23 atriði um kapítalisma sem klifað hefur verið á:]
Eftir jarðskjálftana miklu í Tókío 1923 sagði austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter þurrlega, að aldrei þessu vant hefði kapítalismanum ekki verið kennt um þá. Nýútkomin bók kóreska hagfræðingsins Ha-Joon Changs er eitt þúsunda verka, sem skrifuð hafa verið gegn kapítalismanum. Þau 23 atriði, sem hann telur ekki sagt frá um kapítalismann, hafa langflest komið fram áður og það margsinnis. Chang, sem kennir þróunarhagfræði í hinu gamla vígi keynesverja í Cambridge-háskóla, þurfti hins vegar ekki að kvarta undan viðtökunum á Íslandi. Honum var boðið sérstaklega hingað vegna útkomu bókarinnar, og hélt hann fyrirlestur á vegum útgefanda síns í Háskóla Íslands 6. september 2012. Að fyrirlestrinum loknum ræddu um boðskap hans í pallborði prófessorarnir Stefán Ólafsson, Páll Skúlason og Jóhann Páll Árnason. Að sjálfsögðu spjallaði Egill Helgason líka við Ha-Joon Chang í umræðuþætti sínum í Sjónvarpinu, Silfri Egils, og aðdáendur Changs flýttu sér að setja viðræðurnar á Youtube.
Gott dæmi um málflutning Changs er fyrsta atriðið, sem hann telur ekki sagt frá: Frjáls markaður sé ekki til. Þetta fræddi John Kenneth Galbraith okkur líka á í Iðnríki okkar daga, sem kom fyrst út á íslensku 1970. Rök Changs eru, að hver einasti markaður lúti einhverjum reglum, sem við teljum margar svo sjálfsagðar, að við tökum ekki eftir þeim. Auðvitað er þetta rétt. En leiðir niðurstöðuna af forsendunni? Chang hefði frekar átt að segja, að alfrjáls eða óheftur markaður sé ekki til. Hugtakið frjáls markaður er prýðilega nothæft, þótt einhver skilgreiningarvandi sé eflaust á ferð. Sumir markaðir eru frjálsari en aðrir. Vinnumarkaður er til dæmis frjálsari í Bandaríkjunum en í flestum löndum Evrópusambandsins, þótt hann sé ekki alfrjáls þar vestra. Gjaldeyrismarkaður er nú ófrjálsari á Íslandi en í flestum öðrum Evrópulöndum. Chang gerir rökvillu, sem varað er við í öllum inngangsnámskeiðum í heimspeki. Villan er kennd við sköllótta manninn. Hvenær er maður alhærður, hvenær þunnhærður og hvenær sköllóttur? Þótt við getum ekki skilgreint þessi hugtök nákvæmlega, vitum við, þegar einn maður er með hár og annar sköllóttur, jafnvel þótt einhver hár kunni að vera eftir á höfði hans. Við segjum ekki hróðug: Sköllóttur maður er ekki til.
Í þessu sambandi fjölyrðir Chang um lög gegn barnavinnu í Bretlandi, sem sett voru 1819 gegn háværum mótmælum. En var barnavinna afleiðing af kapítalismanum? Var hún ekki frekar afleiðing af þeirri sáru fátækt, sem flestir Bretar höfðu búið við öldum og árþúsundum saman? Því má ekki gleyma, að börn voru þrælkuð í sveitum Bretlands fyrir daga kapítalismans. Meginástæðan til þess, að barnavinna hvarf að mestu úr sögunni á Vesturlöndum á nítjándu og tuttugustu öld, var aukin velmegun og fleiri tækifæri foreldranna til að brjótast út úr fátækt. Lög gegn barnavinnu voru því oftast afleiðing þróunarinnar frekar en orsök. Þetta sést gleggst á því, að barnavinna er enn algeng í fátækum löndum, jafnvel þótt reynt sé að koma í veg fyrir hana með innlendri löggjöf og alþjóðlegu eftirliti. Auðvitað getur barnavinna ekki verið neinum mannvinum kappsmál. En með örsnauðum þjóðum er spurningin oft, hvort fjölskyldan eigi öll að svelta eða börnin líka að vinna. Hverjir treysta sér til að velja fyrri kostinn?
Hér er ekki tóm til að skoða öll 23 atriðin, sem Chang telur upp. En tökum 10. atriðið, sem ekki á að vera sagt frá: Bandaríkjamenn njóti ekki bestu lífskjara í heimi, þótt þeir séu iðulega taldir fulltrúar hins frjálsa markaðar. Síðan fer Chang með þau gamalkunnu rök, að hagtölur frá Bandaríkjunum endurspegli ekki veruleikann þar vestra. Gæðum sé misskipt, heilsugæsla lök og glæpir tíðir. Hér er að mörgu að hyggja. Í fyrsta lagi eru Bandaríkin ekkert fyrirmyndarríki þeirra, sem kenna sig við frjálshyggju eða frjálsan markað. Til er prýðileg mæling á því, hvaða hagkerfi heims komist næst (og fjærst) því að kallast frjáls. Hún felst í svokallaðri vísitölu atvinnufrelsis, og eru öll gögn um hana tiltæk á netinu, á http://www.freetheworld.com Samkvæmt henni eru frjálsustu hagkerfi heims í þessari röð árið 2010: Hong Kong, Singapúr, Nýja Sjáland, Sviss og Ástralía. Atvinnufrelsi hefur síðustu ár minnkað verulega í Bandaríkjunum, og er þar nú 18. frjálsasta hagkerfi heims. Nú myndu frjálshyggjumenn af ætt Johns Lockes og Adams Smiths horfa til fleiri þátta en atvinnufrelsis, til dæmis réttaröryggis, borgaralegra réttinda og umburðarlyndis, og þá myndu Hong Kong og Singapúr þoka fyrir Nýja Sjálandi, Sviss og Ástralíu. Þótt frjálshyggjumenn eigi sér ekkert fyrirmyndarríki, kemst Sviss líklega næst því að vera frjálshyggjuríki í þeirra skilningi. Þar er möguleikum eins hóps á að kúga annan eða sitja yfir hlut hans sett þrengri takmörk en víðast annars staðar.
Í öðru lagi eru Bandaríkin einmitt það, sem þau heita, bandalag fimmtíu ólíkra ríkja. Fróðlegt er að bera þau saman við Evrópusambandið, bandalag 27 ólíkra ríkja. Lítum til dæmis á verga landsframleiðslu á mann, sem oftast er notuð til að mæla lífskjör. Árið 2010 var hún meiri en 64 þúsund dalir í þremur ríkjum Bandaríkjanna, Delaware, Alaska og Connecticut, en aðeins í einu ríki Evrópusambandsins, Lúxemborg. Hún var á bilinu 3335 þúsund dalir í þremur fátækustu ríkjum Bandaríkjanna, Mississippi, Vestur-Virginíu og Idaho, en 23 þúsund dalir í Portúgal, 28 þúsund í Grikklandi, 36 þúsund í Stóra-Bretlandi og 38 þúsund í Svíþjóð. Hefði Svíþjóð gengið út úr Evrópusambandinu árið 2010 og inn í Bandaríkin sem 51. ríkið, þá hefði landið mælst undir meðallagi þar um lífskjör. Á sama hátt og óeðlilegt er að dæma Evrópusambandið eftir heilsufari í Portúgal, verða Bandaríkin ekki dæmd eftir glæpatíðni í Mississippi. Bandaríkin eru sundurleit, enda samfelldur straumur innflytjenda þangað, en ekki verður um það efast, að lífskjör þar eru almennt betri en í Evrópu. Því er við að bæta vegna orða Changs um heilbrigðismál, að Bandaríkjamenn verja meira fé til þeirra en nokkur önnur þjóð, um 17% landsframleiðslu eða um 8 þúsund dölum á mann á ári. (Næstir koma Norðmenn og Svisslendingar, með um 10% landsframleiðslu og um 5 þúsund dali á mann. Jafnvel þegar aðeins er tekið með í reikninginn, hverju hið opinbera ver til heilbrigðismála, eru Bandaríkjamenn í fimmta sæti í heiminum.)
Þegar rætt er um lífskjör, er spurningin þó frekar, á hvaða leið fólk er en hvar það er statt hverju sinni. Ha-Joon Chang bendir á hið sama og ótal aðrir á undan honum, að góð lífskjör í Bandaríkjunum eru ekki síst því að þakka, að menn vinna þar meira en í Evrópu. Er það ekki fagnaðarefni? Í landi, þar sem næg atvinnutækifæri eru, eiga menn þess einmitt kost að vinna annaðhvort lítið eða mikið. Í landi, þar sem atvinnutækifærin eru hins vegar fá eða engin, geta menn ekki valið um hærri tekjur og færri tómstundir annars vegar eða lægri tekjur og fleiri tómstundir hins vegar. Í Evrópusambandinu hindra voldug verkalýðsfélög til dæmis á ýmsan hátt leið ungs fólks út á vinnumarkaðinn, svo að atvinnuleysi æskufólks er þar verulegt, jafnvel átakanlegt.
Tökum síðan 22. atriðið, sem Ha-Joon Chang telur ekki sagt frá: Fjármálamarkaðir valdi óstöðugleika. Þetta hefur verið vitað í mörg hundruð ár. Lánsfjárbólur hafa sprungið með reglulegu millibili. Raunar fullyrða hagfræðingar úr austurríska skólanum (lærisveinar Ludwigs von Mises og Friedrichs von Hayeks), að lánsfjárbólur séu einmitt helstu skýringarnar á hagsveiflum. En ástæða er til að stalda sérstaklega við þetta atriði, því að Chang tekur Ísland til dæmis (bls. 272):
Íslenska hagkerfið var ríkt fyrir en það fékk gríðarlega innspýtingu seint á tíunda áratugnum þegar stjórnvöld ákváðu að einkavæða fjármálageirann og lausbeisla hann. Milli áranna 1998 og 2003 einkavæddi landið banka í ríkiseign og fjárfestingasjóði og hunsaði jafnvel grundvallarregluverk um starfsemi þeirra, til dæmis kröfur um varasjóði banka. Í kjölfarið stækkuðu íslensku bankarnir með ævintýralegum hraða og leituðu sér viðskiptavina erlendis líka.
Þessi lýsing er ekki nákvæm. Þegar ríkisbankarnir íslensku voru seldir um síðustu aldamót, var eignarhaldi á þeim aðeins komið í sama horf og í grannríkjunum. Vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu störfuðu þeir við nákvæmlega sömu reglur og bankar annars staðar á svæðinu. Stjórnvöld hunsuðu engar reglur um varasjóði banka, heldur fóru dyggilega eftir þeim. Þegar losað var til dæmis um bindiskyldu, var það gert til þess að samræma starfsskilyrði íslenskra banka og keppinauta þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Rétt er líka að halda til haga, að lánsfjárbólan íslenska hófst samkvæmt hagtölum greinilega árið 2004, ekki fyrr.
Chang hefur rétt fyrir sér um það, að íslensku bankarnir uxu eftir á að hyggja of hratt og tóku of mikla áhættu. Bólan sprakk, og hvellurinn varð mikill. En á meðan aðrir bankar störfuðu við eina kerfisvillu, störfuðu hinir íslensku við tvær. Hin alþjóðlega kerfisvilla var, að ríkið, seðlabankar og fjármálaráðuneyti, tæki ábyrgð á bönkum, héldi þeim á floti í stað þess að leyfa þeim að sökkva, þegar þeir gætu ekki haldið sér uppi af sjálfsdáðum. Þetta olli óhóflegri áhættusækni: Bankarnir hirtu gróðann, þegar vel gekk, en létu ríkið sitja uppi með tapið, þegar illa gekk. Séríslenska kerfisvillan var, að rekstrarsvæði íslensku bankanna, allt Evrópska efnahagssvæðið, var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra, Ísland eitt. Þess vegna hrundu allir íslensku bankarnir í einu. Þeir höfðu eins og bankar annars staðar tekið óhóflega áhættu, en íslenska ríkið, seðlabankinn og fjármálaráðuneytið, hafði ekki burði til að halda þeim öllum á floti og fékk (ef til vill sem betur fer) ekki aðstoð frá öðrum til þess.
Það var hins vegar ekki bót í máli, að eigendur íslensku bankanna höfðu lítið aðhald af sterku almenningsáliti og skilvirkum eftirlitsstofnunum. Í kaflanum um Ísland nefnir Chang sérstaklega útrásarvíkinginn Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann var ekki aðeins langstærsti skuldunautur allra íslensku bankanna (sem snarjók áhættu þeirra), heldur átti hann líka öfluga fjölmiðla og háværa talsmenn. Þegar Jón Ásgeir var ákærður fyrir margvísleg efnahagsbrot sumarið 2005, skrifaði Þorvaldur Gylfason prófessor í Fréttablaðið (7. júlí):
Áhlaup ríkisvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í fyrrasumar fór út um þúfur þegar forseti Íslands neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin. Nú virðist standa til að jafna um Jón Ásgeir og fimm aðra fyrir rétti. Hvað býr að baki? Kannski bara skortur á virðingu fyrir markaðsbúskap og meðfylgjandi valddreifingu og þá um leið fyrir nauðsynlegri aðgreiningu framkvæmdavaldsins, löggjafarvald og dómsvalds. Hver veit?
Jón Ásgeir var síðan sakfelldur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot, en sýknaður af mörgum öðrum ákæruatriðum eða þeim var vísað frá. Dómurinn yfir honum þótti óvenjuvægur, og má halda því fram, að við það hafi ekki dregið úr áhættusækni hans og annarra útrásarvíkinga. Þeir hafi talið sér flest leyfilegt.
Skáldið Þórarinn Eldjárn komst eitt sinn svo að orði, að það hafi ekki verið fyrr en eftir hrunið, sem allir sáu það fyrir. Mér er þó minnisstætt, þegar hinn kunni skoski sagnfræðingur Niall Ferguson sagði á hádegisverðarfundi Kaupþings sumarið 2007, að sér fyndust óþægilega mörg teikn á lofti svipuð þeim, sem sáust í aðdraganda heimskreppunnar miklu. En fáir voru sammála Ferguson. Hér á Íslandi varaði Davíð Oddsson, seðlabankastjóri 20052009, margsinnis við örum vexti bankanna. Hann sagði til dæmis á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007: Hin hliðin á útrásinni er þó sú, og framhjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Hann bætti við: Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess, sem fært er að búa við til lengri tíma. Ég sat í bankaráði Seðlabankans 20012009 og get borið um, að Davíð var afdráttarlaus um þetta í einkasamtölum, þótt hann yrði starfs síns vegna að fara varlega opinberlega. Honum fundust bankarnir taka allt of mikla áhættu með hinum öra vexti sínum, en ekki síður með því að lána nátengdum aðilum stórfé (til dæmis fyrirtækjum með ólík nöfn og aðskildar kennitölur, en öllum í eigu fámenns hóps í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson). Raunar tekur Ha-Joon Chang undir þetta, þegar hann segir (bls. 273), að í ljós hafi komið, hversu skuggalegir fjármálagjörningarnir að baki efnahagsundrinu á Íslandi höfðu verið. En þar eð Chang vitnar á einum stað í bók sinni til Þorvaldar Gylfasonar prófessors (um framleiðnitölur), má rifja upp, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra 20072009, bar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu (8. bindi, bls. 140), að hún hefði í ráðherratíð sinni haft mikið samband við Þorvald, en hann hefði aldrei varað sig við neinni hættu í bankakerfinu.
Ha-Joon Chang telur Ísland hrunsins skólabókardæmi um afleiðingarnar af lausbeisluðum kapítalisma. Sönnu nær er, að Ísland hafi verið fórnarlamb alþjóðlegrar lánsfjárkreppu. Ég hef þegar nefnt hina alþjóðlegu kerfisvillu, áhættusækni banka vegna ábyrgðarleysis þeirra á eigin mistökum, en við hana bættust hagstjórnarmistök í Bandaríkjunum, til dæmis undirmálslánin á húsnæðismarkaði og ógætileg vaxtastefna seðlabankans. Kapítalismanum verður ekki kennt um þetta frekar en um jarðskjálftana í Tokíó 1923. Kreppan skall síðan fyrr og verr á Íslandi en öðrum löndum, og voru til þess fleiri ástæður en hin séríslenska kerfisvilla, sem ég hef þegar nefnt, miklu stærra rekstrarsvæði banka en baktryggingarsvæði þeirra. Viðbótarástæða var, að áhættan dreifðist á miklu færri aðila hér en annars staðar. Bankarnir voru aðeins þrír, og einn aðili skuldaði þeim hvorki meira né minna en eitt þúsund milljarða króna, eftir því sem næst verður komist. Þriðja ástæðan var, að þjóðin var orðin góðu vön. Samdráttur landsframleiðslu varð hér ekki miklu meiri en víða annars staðar: Hér varð hann 7% 2009, en í Eistlandi 14% og á Írlandi 5%. (Til samanburðar má nefna, að samdrátturinn í Finnlandi 1991 var 6% og 1992 3%.) Þjóðinni varð hins vegar miklu meira um lánsfjárkreppuna en öðrum. Hún tók hana afar nærri sér. Í huga hennar varð hrunið miklu stórkostlegra en efni stóðu til. Fjórða ástæðan var auðvitað, að Bretar beittu hryðjuverkalögum í því skyni að knýja íslenska ríkið til að greiða skuldir, sem það hafði ekki stofnað til. Það var áreiðanlega mörgum sálrænt áfall, auk þess sem það jók á erfiðleika Íslendinga.
Þetta merkir ekki, að kapítalisminn sé með öllu saklaus af lánsfjárkreppunni. Líklega er hann í eðli sínu óstöðugur (að minnsta kosti við brotaforðakerfi, fractional reserve banking). En ríkisvald skapar líka óstöðugleika. Stundum lendir ríkisvaldið jafnvel í höndum miskunnarlausra einræðisherra, sem höggva í stríðum sínum stór skörð í heilar kynslóðir, og má nefna Lenín, Hitler og Maó, en líka fyrr á öldum Lúðvík XIV. og Napóleon Bónaparte. Vesturlandabúar hafa ekki náð fullu valdi á nýrri fjármálatækni, svo sem afleiðum og skortsölu, en rétta ráðið er ekki að banna slíka tækni, eins og Ha-Joon Chang virðist vilja, heldur að finna nýjar leiðir til þess að samræma sérhagsmuni og almannaheill. Lækningin má ekki verða verri en meinsemdin. Það er einmitt einn meginkosturinn við frjálsan markað, að þar geta menn við margvíslegar kringumstæður (en ekki alltaf) unnið að almannahag, um leið og þeir keppa að eigin hag. Þetta felur ekki í sér, eins og Ha-Joon Chang staðhæfir, að stuðningsmenn hins frjálsa markaðar þurfi að lofsyngja eigingirni. En valt er að treysta á náungakærleik í skiptum ókunnugra manna, þótt það megi ef til vill gera í skiptum raunverulegra náunga, sem hafa samkennd hver með öðrum. Móðir vakir heila nótt yfir sjúku barni sínu án þess að telja það eftir sér. Daginn eftir kaupir hún bíl frá Kóreu, og það gerir hún ekki, vegna þess að henni þyki vænt um Kóreumenn, heldur af því að henni stendur til boða ódýrari eða vandaðri bíll þaðan en annars staðar. Hið mikla afrek markaðarins er hljóðlát og tiltölulega skilvirk samvinna fólks í öllum heimshornum, sem þekkir ekki hvert annað og hefur því síður samúð hvert með öðru, en leggur sig þó fram um að fullnægja þörfum hvers annars í frjálsum viðskiptum.
Bók Ha-Joon Changs er fjörlega skrifuð, þótt hann sé mjög ósanngjarn í garð kapítalisma, og margt er þar skarplega athugað. Höfundurinn bendir til dæmis á það, að ekkert sterkt samband er á milli menntunarstigs og hagvaxtar. Hann telur ekki heldur, að til sé sérstök auðlindabölvun (óskynsamleg hegðun þjóða, sem búa við gjöfulli auðlindir en aðrar). Hann tekur einnig undir það, sem Milton Friedman og fleiri hafa haldið fram, að ýmsir minnihlutahópar geti rétt hlut sinn á frjálsum markaði, því að viðskiptavinir spyrji ekki, hvernig bakarinn er á litinn, heldur hvernig brauðið er á bragðið. Ég hef hér aðeins skoðað nokkur atriði af þeim fjölmörgu, sem Chang nefnir, en stuðningsmenn hins frjálsa markaðar eiga vissulega að spreyta sig á að svara honum, þótt segja megi um bók hans: Það, sem er nýtt þar, er ekki gott, og það, sem er gott þar, er ekki nýtt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook