Bókum liggur ekki á

Fyrir skömmu sat ég kvöldverð með nokkrum gömlum vinum, óljúgfróðum og langminnugum. Einn þeirra hafði haft nokkur kynni af Tómasi skáldi Guðmundssyni, sagði margar sögur af honum og hafði eftir honum viturleg ummæli. Ein hljóðuðu svo: „Bókum liggur ekki á.“ Með þessu brýndi Tómas fyrir viðmælanda sínum, hversu mikilvægt er að vanda til bóka, leyfa þeim að þroskast og vaxa í huga sér, velta fyrir sér efnistökum og söguþræði, velja verkinu og einstökum köflum þess hæfileg heiti, hafa (eins og sagt var um höfund Njálu) síðustu setninguna í huga, þegar hin fyrsta er sett á blað, skrifa og endurskrifa, uns stíllinn er orðinn þróttmikill og blæbrigðaríkur og þó tilgerðarlaus, en ekki hröngl af slitnum orðum og sljórrar merkingar. Sjálfur hef ég lært af hverri einustu bók, sem ég hef sett saman eða ritstýrt.

Þessi kunningi Tómasar skálds var ungur maður, þegar þeir töluðu hvað mest saman, og eindreginn sjálfstæðismaður. Tómas hafði að vísu sömu stjórnmálaskoðun, en sagði: „Ungi maður, heimurinn er ekki í svörtu og hvítu, eins og þú heldur. Hann er í miklu fleiri litum. Og mennirnir eru ekki algóðir eða alvondir. Allir hafa eitthvað til síns máls.“ Síðan þagnaði hann smástund og læddi síðan út úr sér grafalvarlegur: „Nema auðvitað framsóknarmenn.“

Talið barst að deilunum um ævisögu Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson, en hún kom út í þremur bindum 1961–1964. Óhætt var að segja, að Reykvíkingar stæðu á öndinni yfir verkinu, sem skrifað var af ástríðufullri aðdáun á Hannesi. Stúdentafélag Reykjavíkur hélt fjölmennan fund 22. janúar 1964 um ritið, sérstaklega þó deilurnar um uppkastið 1908, og var annar framsögumaðurinn Sigurður A. Magnússon, heitur aðdáandi Hannesar. Í almennum umræðum sló í brýnu milli Sigurðar og eins fundarmanna, Sveins Benediktssonar, en faðir hans, Benedikt Sveinsson, hafði verið einn helsti andstæðingur Hannesar í uppkastsmálinu. Viðmælandi minn í kvöldverðinum hafði ekki verið á fundinum, enda þá aðeins sextán ára. En hann heyrði einn áheyrandann, Pál Líndal, lýsa orðasennu þeirra Sigurðar og Sveins eftirminnilega: „Þar fór grautur í kringum heitan kött!“ Grauturinn var Sigurður, sem er með afbrigðum óskýr í máli, en heiti kötturinn Sveinn, sem var á fundinum hinn reiðasti.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. desember 2012. Ég ætti að bæta því við, að nýútkomin er bók eftir Gunnar Þór Bjarnason um uppkastið 2008. Fær hún góða dóma, og hlakka ég til að lesa hana.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband