Ættarmetnaður og ættardramb

Mér varð hugsað til margra sagna um ættarmetnað og ættardramb, þegar ég las nýlega fróðlega bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings um Íslensku ættarveldin. Frá Oddaverjum til Engeyinga.Ein sagan er af forngríska skósmiðssyninum Ifíkratesi, sem gerðist herforingi og lést 348 f. Kr. Þegar ættstór maður, afkomandi hetjunnar Harmodíosar, hæddist að honum fyrir smátt ætterni, svaraði Ifíkrates: „Ættarsaga mín hefst með mér, en þinni lýkur á þér.“

Einn marskálkur Napóleons keisara, Nicolas-Jean de Dieu Soult, sem uppi var 1769 til 1851, fékk hertoganafnbót og á að hafa svarað spurningu háaðalsmanns af gömlum og tignum ættum, Mathieus J.F. de Montmorencys hertoga, um ættfeður sína: „C'est nous qui sommes des ancêtres“, það erum við, sem erum ættfeðurnir.

Oft hefur líka verið vitnað til vísu norska skáldsins Henriks Ibsens, sem Matthías Jochumsson þýddi:

Það gefur ei dvergnum gildi manns,

þótt Golíat sé afi hans.

Þorsteinn Sölvason kennari frá Gafli í Svínadal orti um einn dótturson Bólu-Hjálmars, sem honum þótti ekki standa undir ætterninu:

Sé ég nú, að satt er það,

sem að forðum skáldið kvað.

Það gefur ei dvergnum gildi manns,

þótt Golíat sé afi hans.

Ég hef þegar sagt frá orðaskiptum Magnúsar Torfasonar sýslumanns og Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, sem báðir voru afkomendur Finns biskups Jónssonar. Magnús stærði sig af því að vera kominn af Finni í beinan karllegg, „og minn er göfugri“. Jón var kominn af Finni í kvenlegg og svaraði: „En minn er vissari.“

Fræg eru líka ummæli Jóns Jacobsons landsbókavarðar, sem uppi var 1860 til 1925 og taldi sjálfan sig ættstóran: „Það er ekki nema einn Íslendingur ættgöfugri en ég. Það er Helga, dóttir mín, því hún er af ætt konunnar minnar líka.“ Móðir Helgu og kona Jóns, Kristín Pálsdóttir, var af Vídalínsætt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. desember 2012.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband