18.11.2012 | 20:20
Ótrúlegur munnsöfnuður
Því má lengi velta fyrir sér, hvers vegna Íslendingum varð miklu meira um lánsfjárkreppuna en öðrum þjóðum, sem lent hafa í sambærilegum vandræðum. Ein ástæða var, að þeir höfðu bundið miklar vonir við bankana og voru stoltir af þeim. Því sárari urðu vonbrigðin. Önnur var, að íslensku bankarnir féllu einna fyrstir evrópskra banka og allir nánast í einu, og héldu þá sumir, að þetta væri séríslenskt fyrirbæri. Nú, nokkrum árum síðar, sjáum við skýrar en áður, að þetta var aðeins eitt dæmið af mörgum um það, að alþjóðleg lánsfjárbóla sprakk.
En vegna þess að Íslendingar tóku kreppuna miklu nær sér en aðrar þjóðir, varð hér hálfgert siðarof. Ýmsar hömlur hafa horfið. Menn leyfa sér til dæmis miklu verra orðbragð opinberlega en áður. Þegar Páll Magnússon útvarpsstjóri var nýlega spurður um gagnrýni Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, á fréttaflutning Ríkisútvarpsins, svaraði hann:
Það er ekki lengur hægt að svara því sem frussast út um samanbitna kjálkana á Davíð þegar hann fjallar um RÚV. Þetta er eins og það skrýtnasta í kveðskap Æra-Tobba eitthvað illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið. En Tobbi verður að njóta sannmælis. Flest það sem hann samdi er auðvitað miklu gáfulegra en heiftarþruglið í Reykjavíkurbréfum Davíðs.
Þessi orð eru ótrúleg, ekki síst þegar þau koma frá embættismanni, sem stjórnar áhrifamiklum fjölmiðli og hefur lögbundnar skyldur til að gæta í hvívetna óhlutdrægni og sanngirni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook