Bókmenntaviðburður á Íslandi

Íslensk þýðing á hinni mögnuðu skáldsögu Ayns Rands, Undirstöðunni (Atlas Shrugged), er sannkallaður bókmenntaviðburður. Ég sótti 26. október útgáfuhóf, sem Almenna bókafélagið efndi til í Þjóðmenningarhúsinu vegna útkomu verksins, en Elín Guðmundsdóttir þýddi það á íslensku, og studdist hún á nokkrum stöðum við eldri þýðingu á hluta verksins eftir Ólaf Teit Guðnason.

Undirstaðan er funheit skáldsaga með ferhyrningi frekar en þríhyrningi, Dagnýju Taggart og þremur mönnum, sem keppa um ástir hennar. En hún geymir líka boðskap Ayns Rands um frelsi, sköpun og sníkjulíf. Þótt hún sé firnalöng, 1146 blaðsíður í íslensku þýðingunni, hefur hún selst í alls um átta milljónum eintaka, frá því að hún kom fyrst út, og er ekkert lát á.Ayn Rand, sem fæddist og ólst upp í Rússlandi, en haslaði sér síðan völl í Hollywood, þar sem hún samdi handrit fyrir kvikmyndaver, er einn sérkennilegasti og sjálfstæðasti heimspekingur og rithöfundur Bandaríkjanna á tuttugustu öld. Til eru nokkur sjónvarpsviðtöl við hana. Mike Wallace tók eitt árið 1959, Johnny Carson annað 1967 og Phil Donahue enn annað 1979.

Douglas Rasmussen, heimspekiprófessor í St. John’s-háskólanum í New York-ríki, flutti ágætt erindi í útgáfuhófinu um heimspeki og skáldskap Ayns Rands, og hefur það verið sett á Netið. Fjölmenni var á fyrirlestri hans og í móttöku Almenna bókafélagsins á eftir. Óhætt er að segja, að þetta mikla verk fari vel af stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband