26.10.2012 | 08:29
Stefán: Sáuð þið hvernig ég tók hann?
Stundum líkir lífið eftir listinni. Frægt er atvikið úr Skugga-Sveini Matthíasar Jochumssonar, þegar Jón sterki sagði: Sáuð þið, hvernig ég tók hann? eftir að Haraldur útilegumaður lagði hann. Það rifjaðist upp fyrir mér eftir nokkur orðaskipti í dag og heldur undarleg á Facebook.
Björn Ingi Hrafnsson hafði boðið okkur Stefáni Ólafssyni að hafa framsögu á fundi um jöfnuð og tekjudreifingu, eftir að ég hafði flutt fyrirlestur um það efni hjá Sagnfræðingafélaginu og Stefán andmælt þar kröftuglega utan úr sal. Ég kvaðst vera fús til þess. En Stefán svaraði: Blessaður Björn Ingi og takk fyrir boðið. Mér finnst þetta hins vegar ekki mjög spennandi samsetning. Þá er ég m.a. með í huga fyrirlestur Hannesar um fátækt sem ég var að hlusta á í fyrradag. Hann var á svo lágu plani að mér finnst þetta samhengi ekki nógu spennandi.
Ég svaraði Birni Inga að bragði: Ég er alls ekki hissa á, að Stefán treysti sér ekki til að mæta mér. Sumar staðreyndirnar, sem ég rakti, eru honum mjög óþægilegar. En þá brá Stefán sér skyndilega í hlutverk Jóns sterka. Hann skrifaði strax inn á Facebook: Þora hvað? Ég mætti þér í Þjóðminjasafninu og kýldi þig kaldan. Salinn setti hljóðan í kjölfarið! Það er ekkert að þora - heldur spurning um hvað er viðeigandi. Góðar stundir.
Kýldi mig kaldan? Matthías Jochumsson hefði ekki getað orðað þetta betur: Sáuð þið, hvernig ég tók hann?
En hverjar skyldu þessar óþægilegu staðreyndir vera, sem Stefán treystir sér ekki til að ræða? Ég nefni hér aðeins tvær af mörgum:
- Stefán Ólafsson sagði í grein í Morgunblaðinu 7. maí 2003: Það fær þannig ekki staðist að fátækt almennt eða barnafátækt sérstaklega sé minni á Íslandi en í öllum öðrum löndum að Svíþjóð undanskilinni. En þetta reyndist ekki rétt. Samkvæmt fátæktar- og lífskjarakönnun hagstofu Evrópusambandsins fyrir 20032004, sem birt var 2007, var fátækt þá hvergi minni en á Íslandi að Svíþjóð undanskilinni. Upphlaupið um fátækt, sem skipulagt var af Borgarfræðasetri (Stefáns Ólafssonar) vorið 2003, rétt fyrir kosningar, studdist ekki við staðreyndir.
- Stefán Ólafsson sagði í grein í Morgunblaðinu 31. ágúst 2006: Lengst af voru Íslendingar á svipuðu róli í skiptingu tekna og lífskjara og frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum (sjá t.d. bókina Íslenska leiðin, útg. 1999). Árið 2004 er Ísland hins vegar komið í hóp ójafnari þjóðanna í Evrópu og nálgast Bandaríkin óðfluga, en þeir hafa verið með ójöfnustu tekjuskiptinguna í hópi ríku þjóðanna á Vesturlöndum um langt árabil. En þetta reyndist ekki rétt. Samkvæmt fátæktar- og lífskjarakönnun Evrópusambandsins fyrir 20032004, sem birt var 2007, var tekjuskipting á Íslandi þá áþekk og annars staðar á Norðurlöndum. Upphlaupið um ójöfnuð, sem skipulagt var af Stefáni Ólafssyni veturinn 20062007, skömmu fyrir kosningar, studdist ekki við staðreyndir. Raunar viðurkennir Stefán þetta óbeint í nýbirtri ritgerð í Stjórnmálum og stjórnsýslu. Þar segir hann (bls. 61): Ísland er í 16. sæti [um ójafna tekjuskiptingu í OECD-ríkjum] árið 2007 en hafði verið enn á svipuðu róli og hinar norrænu þjóðirnar 2004 (5. sæti). Um þetta snerist einmitt deila okkar Stefáns veturinn 20062007. Ég sagði, að Ísland hefði verið með áþekka tekjuskiptingu 2004 og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en Stefán hélt því þá fram, að hún hefði orðið miklu ójafnari. Hann var þá með rangar tölur, bar saman ósambærilegar mælingar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook