25.10.2012 | 11:11
Fjörugar umræður: Stefán í uppnámi
Ég flutti fyrirlestur hjá Sagnfræðingafélagi Íslands í hádeginu 9. október 2012 um Fátækt á Íslandi 19912004. Þar greindi ég fyrst fátæktarhugtök Adams Smiths, G. W. F. Hegels og Johns Rawls, en hinn síðast nefndi hélt því fram, að sú skipan ein væri réttlát, þar sem hinum verst settu vegnaði sem best. Ég sagði, að það sjónarhorn væri fróðlegt, þótt fleiri væru til. Þá kynnti ég nýja alþjóðlega mælingu á tengslum atvinnufrelsis og lífskjara, sérstaklega lífskjara hinna verst settu. Í ljós hefði komið, að hinir verst settu væru almennt best settir í frjálsustu hagkerfunum (þeim fjórðungi þeirra 144 hagkerfa, sem frjálsust reyndust í mælingunni fyrir árið 2010).
Atvinnufrelsi hefur snarminnkað á Íslandi síðustu árin. Hagkerfið hér var árið 2004 hið 13. frjálsasta af 130 hagkerfum. Árið 2010 var það hins vegar hið 65. frjálsasta af 144 hagkerfum. Það var í næstfrjálsasta fjórðungi hagkerfa, við hlið Sádi-Arabíu. Norðurlöndin voru hins vegar öll í frjálsasta fjórðungnum. Ófrjálsast var sænska hagkerfið, sem var 30. af 144 hagkerfum 2010. Þetta veit ekki á gott um kjör hinna fátækustu eða verst settu síðar meir hér á landi.
Þá rifjaði ég upp áróðurinn fyrir kosningarnar 2003 um, að fátækt væri þá hér meiri en annars staðar á Norðurlöndum. Meðal annars hefði Borgarfræðasetur, sem Stefán Ólafsson prófessor veitti forstöðu, gefið út bók þessa efnis, sem þáverandi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði í kosningaræðu kallað biblíuna sína. En þetta hefði ekki reynst rétt samkvæmt víðtækri lífskjarakönnun hagstofu Evrópusambandsins um árin 20032004, sem birtist í ársbyrjun 2007. Fátækt mældist hér einna minnst hlutfallslega í Evrópu árin 20032004.
Síðan ræddi ég um áróðurinn fyrir kosningarnar 2007 um, að tekjudreifing hefði 2004 mælst ójafnari hér en annars staðar á Norðurlöndum. Hefði Stefán Ólafsson skrifað um það ófáar greinar. En í ljós hefði komið, að tekjudreifing var hér 2004 svipuð og annars staðar á Norðurlöndum, væri miðað við svokallaða Gini-stuðla. Hefðu ósambærilegar tölur verið bornar saman til þess að fá aðra niðurstöðu (tölur frá Íslandi með söluhagnaði af hlutabréfum, tölur frá öðrum löndum án hans). Hefði Stefán raunar viðurkennt þetta óbeint í nýbirtri ritgerð í Stjórnmálum og stjórnsýslu.
Ég gagnrýndi líka ýmsa aðra talnameðferð Stefáns, til dæmis um kjör ellilífeyrisþega, þar sem horft var fram hjá því, að mjög margir á lífeyrisaldri á Íslandi taka ekki lífeyri, heldur halda áfram að vinna. (Þeir voru t. d. 5.000 talsins af 31.000 alls árið 2004.) Það lækkar meðaltöl á hvern íbúa. Þess vegna verður að reyna að finna raunverulegar lífeyristekjur þeirra, sem taka lífeyri.
Ég bar hins vegar engar brigður á það, að tekjudreifingin hefði orðið ójafnari hér í lánsfjárbólunni, sem hófst upp úr 2004, eins og ég sýndi á línuriti. Aðalatriðið væri hins vegar, hvort við kysum frekar að búa í frjálsu hagkerfi, þar sem tækifæri væru til að brjótast út úr fátækt með dugnaði og hagsýni, eða í ófrjálsu hagkerfi, þar sem reynt væri að auðvelda fólki að sitja föstu í fátækt. Var fyrirlestur minn tekinn upp og er væntanlegur á heimasíðu Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt bráðlega.
Að fyrirlestri mínum loknum kvaddi Stefán Ólafsson sér hljóðs, stóð upp og flutti langa tölu um, hversu ómerkilegur ég væri. Hann hefði ekki borið neina ábyrgð á bók þeirri um fátækt frá 2003, sem ég hefði vitnað í. Ég benti þá á, að hún væri meistaraprófsritgerð, sem skrifuð hefði verið undir hans leiðsögn, og að hann hefði verið forstöðumaður þeirrar stofnunar, sem gaf hana út, auk þess sem hann skrifaði grein í Morgunblaðið henni til varnar 7. maí 2003.
Þá kvaðst Stefán fyrir löngu hafa leiðrétt reikningsskekkjurnar um ójafna tekjudreifingu árið 2004, sem ég minntist á. Hann hefði ekki borið neina ábyrgð á þessum reikningsskekkjum, heldur hagstofa Íslands. Ég sagðist ekki hafa orðið var við neinar leiðréttingar Stefáns, nema óbeint. Hann hefði í greinum 2006 haldið því fram, að tekjudreifing hefði 2004 verið orðin miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum vegna frjálshyggjustefnu stjórnvalda, og ég hefði mótmælt því, en hann síðan í kyrrþey breytt lýsingu sinni (meðal annars í hinni nýbirtu ritgerð sinni í Stjórnmálum og stjórnsýslu).
Ég minnti síðan á, að samkvæmt kenningu Johns Rawls, sem jafnaðarmenn horfðu flestir mjög til, væri betra að búa í ríku hagkerfi, þar sem hinir fátækustu nytu þrátt fyrir allt sæmilegra lífskjara, þótt þar væri talsverður tekjumunur, en í fátæku hagkerfi, þar sem hinir fátækustu gætu huggað sig við það eitt, að aðrir væru ekki miklu ríkari.
Stefán var í talsverðu uppnámi, þegar hann flutti tölu sína, og kallaði hann nokkrum sinnum fram í fyrir mér, þegar ég svaraði honum, en ég fagna því samt, að hann skyldi mæta á fundinn og svara fyrir sig. Sumir aðrir hefðu ekki treyst sér til þess í hans sporum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook