Grein mín í Tímariti Máls og menningar

Hausthefti Tímarits Máls og menningar er nýkomið út, og er þar prentað svar mitt við ádeilu Árna Björnssonar þjóðháttafræðings á bók mína, Íslenska kommúnista 1918–1998, en hún birtist í sumarhefti Tímaritsins. Mun eflaust mörgum þykja við Árni fara út í nokkur smáatriði og jafnvel aukaatriði í þessum umræðum, en ég taldi þó rétt að svara honum rækilega og þá hverju einasta atriði, er hann fann að bók minni.

Stjórnmáladeilur á Íslandi snerust í sextíu ár að miklu leyti um kommúnismann í orði og verki. Þetta efni er því mikilvægt, og það er síður en svo útrætt. Sjálfur komst ég að þeirri niðurstöðu í bók minni, að íslenskir kommúnistar hefðu verið jafnmiklir kommúnistar og gerðist annars staðar, en ekki „þjóðlegir verkalýðssinnar“, eins og sumir halda þó fram. Kommúnistaflokkurinn hefði verið venjulegur kommúnistaflokkur. Sósíalistaflokkurinn hefði alla tíð verið undir stjórn kommúnista eins og Brynjólfs Bjarnasonar og Einars Olgeirssonar, þótt hann hefði vissulega ekki verið yfirlýstur kommúnistaflokkur. Alþýðubandalagið hefði verið samsettari flokkur eða blendnari, sem ekki væri eðlilegt að telja kommúnistaflokk, en harður kjarni stalínista hefði samt haft þar veruleg áhrif og ítök.

Það er raunar umhugsunarefni, eins og ég benti á, að forystusveit Alþýðubandalagsins (þar á meðal þau Svavar Gestsson og Margrét Frímannsdóttir) lét það verða sitt síðasta verk að fara í boði kommúnistaflokks Kúbu suður í þá þrælakistu haustið 1998.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband