18.10.2012 | 18:56
Anna Funder
Ástralski rithöfundurinn Anna Funder hélt fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í Háskólanum mánudaginn 24. september. Funder er ung kona og fríð sýnum, en sérlega vel máli farin og býður af sér góðan þokka. Hún er lögfræðingur, en lauk líka doktorsprófi í listrænni sköpun. Sinnti hún mannréttindamálum fyrir Ástralíustjórn, áður en hún gerðist rithöfundur.
Hún sagði okkur áheyrendum frá tveimur bókum sínum. Hin fyrri, Stasiland, hlaut Samuel Johnson-verðlaunin í Bretlandi og kom út á íslensku fyrr á þessu ári. Þar rekur Funder örlög nokkurra einstaklinga, sem bjuggu í Austur-Þýskalandi, á meðan kommúnistar stjórnuðu landinu og leynilögregla þeirra, Stasi, hafði gætur á öllum. Hafði Funder áður talað um bókina á ráðstefnu Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt.
Ég tek eftir, að einn samkennari minn, Stefán Ólafsson prófessor, reynir að gera lítið úr örlögum þessa fólks á bloggi sínu. Spyr hann, hvers vegna verið væri að halda ráðstefnur og teboð til að ræða glæpi sem kommarnir frömdu fyrir 70 til 100 árum.
Stefán Ólafsson hefði átt að koma á annan hvorn fyrirlestur Önnu Funders hér á landi. Kommúnistar náðu völdum í Austur-Þýskalandi 1945 og héldu þeim til 1989, en síðan eru liðin 23 ár (en ekki 70100 ár, eins og Stefán vill vera láta). Funder sagði, að eftirlits- og njósnanet austur-þýskra stjórnvalda hefði verið mjög víðtækt. Einn uppljóstrari hefði verið á hverja fimmtíu menn í landinu. Leynilögreglan Stasi hefði verið vægðarlaus og hver þar haft eftirlit með öðrum. Kvað hún hina frægu kvikmynd Líf annarra (Das Leben der Anderen) ekki sótt í veruleikann í Austur-Þýskalandi, því að þar hefðu leynilögreglumenn ekki getað hlíft neinum.
Hin bókin, sem Anna Funder sagði okkur frá á mánudaginn, er skáldsagan All That I Am, sem kom út fyrr á þessu ári og hefur fengið mjög góða dóma. Er hún sótt í raunverulega viðburði í Þýskalandi Hitlers og Bretlandi, og sagði Anna okkur, að hún styddist meðal annars við ævi gamals þýskukennara síns, sem flýði til Ástralíu. Segir í bókinni frá hópi vinstri sinnaðra andstæðinga Hitlers, sem sluppu sumir undan honum til Bretlands, en inn í söguna blandast dularfullur dauðdagi tveggja þeirra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook