Vel heppnuð ráðstefna

Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, RNH, hélt alþjóðlega ráðstefnu í Háskóla Íslands laugardaginn 22. september 2012 undir yfirskriftinni „Europe of the Victims: Remembering Communism“. Aðalræðuna flutti einn kunnasti sagnfræðingur heims, franski prófessorinn Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, sem kom út á frönsku 1997 og á íslensku 2009.

Courtois sagði, að Svartbókin hefði komið út á 26 málum, en því miður ekki á kínversku og víetnömsku: Stjórnvöld í Kína og Víetnam vilja ekki umræður um fórnarlömb kommúnismans. Courtois lýsti vinnunni við bókina, sem nokkrir fræðimenn, flestir franskir, skrifuðu. Helst hefði komið þeim á óvart, þegar skjöl voru skoðuð, hversu grimmur og blóðþyrstur Lenín hefði reynst. Goðsögnin um hinn góða Lenín og hinn vonda Stalín hefði verið hrakin. Courtois sagði, að bókarhöfundar hefðu alls ekki verið sammála. Þeir hefðu allir verið vinstri menn, og sumir vinstri menn væru viðkvæmir fyrir því, þegar kommúnismi og nasismi væru lagðir að jöfnu. En það, sem stundum væri nefnt kommúnistum til málsbóta, að þeir hefðu aðeins ætlað sér að útrýma borgarastéttinni, en ekki nauðsynlega einstaklingum, væri rangt. Þeir hefðu líka reynt að útrýma ýmsum þjóðabrotum, til dæmis í Rússlandi. Courtois minnti á, að Evrópuráðið hefði 2006 samþykkt yfirlýsingu um glæpi kommúnista og að Evrópuþingið hefði 2009 samþykkt, að 23. ágúst yrði sérstakur minningardagur fórnarlamba kommúnisma og nasisma. Að loknu erindi Courtois stjórnaði Egill Helgason umræðum um það.

Þrír aðrir erlendir gestir fluttu fyrirlestra. Dr. Roman Joch, ráðgjafi forsætisráðherra Tékklands, furðaði sig á því, að kommúnisminn hefði enn aðdráttarafl sums staðar þrátt fyrir hina vondu reynslu af honum. Hann velti því fyrir sér, hvers vegna kommúnisminn hefði fallið 1989–1991, en ekki fyrr eða síðar. Skýringin væri líklega, að til viðbótar við hin innri mein, sem lengi hefðu grafið um sig í kommúnistaríkjunum, hefði forysta vestrænna lýðræðisríkja verið í höndum röggsamra, frjálslyndra leiðtoga. Geimvarnaáætlun Bandaríkjanna hefði til dæmis haft sín áhrif.

Anna Funder, höfundur verðlaunabókarinnar Stasiland, sagði frá nokkrum söguhetjum í bókinni og örlögum þeirra. Hún kvað suma lögreglumenn og dómara í Austur-Þýskalandi, sem tóku fullan þátt í kúguninni, enn gegna störfum.

Norski sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen rakti saman ýmis ummæli Karls Marx og Friðriks Engels annars vegar og fjöldamorð og útrýmingarherferðir kommúnista, þar sem þeir náðu völdum, hins vegar. Marx og Engels hefðu til dæmis stutt Prússa í stríðum þeirra við Dani og Frakka, því að þeir hefðu bundið vonir við þróun Prússlands. Í tilefni stríðs Prússa og Dana hefði Engels talað háðslega um, að Íslendingar væru frumstæðasta Norðurlandaþjóðin. Þeir Marx og Engels hefðu talið, að sumar þjóðir ættu sér ekki tilverurétt.

Að lokum töluðu tveir íslenskir fyrirlesarar. Ég lýsti þróun hinnar róttæku vinstri hreyfingar á Íslandi, frá því að andófsafl myndast í Alþýðuflokknum upp úr 1918, kommúnistaflokkur er stofnaður 1938, Sósíalistaflokkurinn 1968 og Alþýðubandalagið gert að stjórnmálaflokki 1968, fram að því að forysta Alþýðubandalagsins lét það verða sitt síðasta verk að þiggja boðsferð kommúnistaflokks Kúbu þangað suður haustið 1998. Ekki þyrfti að fjölyrða um, að kommúnistaflokkurinn hefði verið hreinræktaður kommúnistaflokkur. Sósíalistaflokkurinn hefði verið undir stjórn sannfærðra stalínista, þótt margir kjósendur hans hefðu ekki verið stalínistar. Alþýðubandalagið hefði hins vegar ekki verið kommúnistaflokkur og ályktað gegn framferði Kremlverja í Tékkóslóvakíu 1968, en samt hefðu nokkrir áhrifamenn í flokknum haldið góðum tengslum við sum kommúnistaríki.

Prófessor Þór Whitehead flutti lokaorð. Hann kvað skjölin, sem fræðimenn hefðu fengið aðgang að eftir hrun Austur-Þýskalands og Ráðstjórnarríkjanna, staðfesta þær skoðanir á kommúnismanum, sem komið hefðu fram í ritum Solzhenítsyns og Roberts Conquests áður. Svartbók kommúnismans væri stórvirki, en halda þyrfti áfram sögulegum rannsóknum á kommúnisma.

Tveir fyrirlesarar á ráðstefnunni munu koma fram opinberlega, Stéphane Courtois í Silfri Egils og Anna Funder í Kiljunni. Anna Funder segir frá nýrri skáldsögu sinni á fundi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í hádeginu 24. september í stofu 201 í Odda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband