Ískyggileg þróun

Vísitala atvinnufrelsis í heiminum fyrir árið 2010 hefur nú verið birt. Hún sýnir ískyggilega þróun á Íslandi. Atvinnufrelsi hefur hér snarminnkað síðustu ár. Þjóðin býr nú við 65. frjálsasta hagkerfi í heimi af 144 þjóðum. Hagkerfið er við hlið hagkerfis Sádi-Arabíu. Það hefur færst úr þeim fjórðungi hagkerfa, sem frjálsust eru, í annan fjórðunginn.
 
Norðurlöndin fjögur eru hins vegar í fyrsta fjórðungnum þrátt fyrir háa skatta. Hagkerfið í Finnlandi er hið 9. frjálsasta í heimi, í Danmörku hið 16. frjálsasta, í Noregi hið 25. frjálsasta og í Svíþjóð hið 30. frjálsasta. Þetta segir þó ekki alla söguna. Í Svíþjóð hefur atvinnufrelsi aukist talsvert hin síðari ár. Svíar hafa snúið baki við „sænsku leiðinni“, sem svo var kölluð.

Á heimasíðu mælingarmannanna er rækilega gerð grein fyrir aðferðum við mælingar á atvinnufrelsi. Sé ég enga ástæðu til þess að efast um niðurstöðurnar. Jafnvel má færa rök fyrir því, að atvinnufrelsi hér sé ofmetið, meðal annars vegna þess að réttaröryggi hefur minnkað hér síðustu árin, en auðvitað er erfitt að meta það í tölum.

Mjög sterk tengsl eru til langs tíma litið milli atvinnufrelsis annars vegar og góðra almennra lífskjara og hagvaxtar hins vegar. Hinir fátækustu í þeim hagkerfum, sem frjálsust eru, njóta miklu betri kjara en annars staðar, þótt eðli málsins séu kjör fátæks fólks aldrei góð.

Þessi þróun er mikið áhyggjuefni. Getur verið, að við séum á sömu leið og þjóðir Rómönsku Ameríku fóru á öndverðri tuttugustu öld, þegar þær urðu lýðskrumi, ofstæki og ofbeldi að bráð með þeim afleiðingum, að þær drógust aftur úr vestrænum þjóðum?

Þriðja leiðin, sem sumir vilja fara milli kommúnisma og kapítalisma, er leiðin inn í Þriðja heiminn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband