19.9.2012 | 07:42
Er Stefán Ólafsson vinstri öfgamaður?
Michael Walker er eins langt frá því að vera slíkur öfgamaður og hugsast getur. Hann er þéttvaxinn, sköllóttur, brosmildur og vingjarnlegur Kanadamaður, sem starfaði í fjármálaráðuneyti lands síns og seðlabankanum, áður en hann varð forstöðumaður Fraser-stofnunarinnar í Vancouver, en hann hefur látið þar af starfi fyrir aldurs sakir. Walker er vissulega frjálshyggjumaður, af ætt Adams Smiths og Johns Lockes, og var góðvinur þeirra Miltons og Rose Friedmans.
Michael Walker hefur aðallega sinnt tölfræðirannsóknum. Stefán Ólafsson hefði haft gott af því að læra eitthvað af honum um meðferð talna. Þá hefði hann ekki gert jafnmeinlega villu og þegar hann bar eitt sinn saman Gini-stuðul fyrir Ísland, þar sem söluhagnaður af hlutabréfum var tekinn með, og Gini-stuðul fyrir grannþjóðirnar, þar sem slíkum söluhagnaði var sleppt. Þá hefði hann ekki heldur gert jafnmeinlega villu og þegar hann reiknaði í annað skipti út meðallífeyristekjur á Íslandi með því að deila með fjölda Íslendinga á lífeyrisaldri í heildargreiðslur lífeyris, en margir Íslendingar á lífeyrisaldri stunduðu vinnu og tóku ekki lífeyri (5.000 af þeim 32.000, sem um var að ræða). Ég fór yfir þessar villur Stefáns og fleiri í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út 2009.
Michael Walker er eins lítill hægri öfgamaður og Stefán Ólafsson vinstri öfgamaður. Stefán er stóryrtur, en við þurfum ekki að hafa áhyggjur af honum: Þótt hann kunni ekki að reikna, gerir hann áreiðanlega ekki flugu mein.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook