13.9.2012 | 06:00
Rosenfeldt um leynistarfsemi kommúnista
Dr. Niels Erik Rosenfeldt, prófessor emeritus í Kaupmannahafnarháskóla, hélt í Háskóla Íslands erindi um leynistarfsemi kommúnista í hádeginu á mánudag, 10. september 2012, við góða aðsókn. Erindið var flutt í stofu 201 í Odda, og stóðu að því Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt og Varðberg, en formaður þess, Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, var fundarstjóri.
Rosenfeldt gaf út fyrir nokkrum árum mikla bók um þetta efni á ensku, Stalins Power Apparatus, og hefur hún hlotið góða dóma í alþjóðlegum sagnfræðiritum. Rekur hann þar í smáatriðum hinar strangleynilegu deildir, sem störfuðu í Komintern, alþjóðasambandi kommúnista 19191943, og raunar lengur, allt til dauða Stalíns. Voru þær þáttur í tilraunum kommúnista til að brjótast við valda um heim allan með undirróðri og ofbeldi.
Rosenfeldt hefur einnig gefið út bók um þetta efni á dönsku, Verdensrevolutionens generalstab, sem líka hefur hlotið góða dóma. Þar segir hann meðal annars nokkuð frá leyniskólum Kominterns í Moskvu, en í þeim stunduðu um tuttugu Íslendingar nám, þar á meðal Hallgrímur Hallgrímsson, sem síðar gerðist sjálfboðaliði í sveit kommúnista í spænska borgarastríðinu. Þetta nám í Moskvu var ekki síst í marxískum fræðum, en einnig var kenndur vopnaburður, skipulagning götuóeirða, skjalafölsun, dulmálssendingar og annað, sem talið var koma í góðar þarfir í byltingunni. Aðspurður kvaðst Rosenfeldt ekki telja neina ástæðu til að ætla, að Íslendingarnir hefðu stundað annars konar nám en aðrir Norðurlandabúar, til dæmis verið sleppt við hernaðarþjálfun, sem var hluti námsins.
Rosenfeldt kvaðst í rannsóknum sínum hafa rekist á þrjú dulmálsskeyti, sem enska leyniþjónustan gat náð og ráðið í, þar sem Ísland hefði komið við sögu. Fóru þau á milli aðalbækistöðvanna í Moskvu og deildarinnar í Kaupmannahöfn um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Spunnust nokkrar umræður um það, þar sem dr. Þór Whitehead prófessor kvaðst líka hafa fengið slík dulmálsskeyti frá breskum söfnum. Notaði ég nokkur þeirra í bók minni, Íslenskum kommúnistum 19181998, til dæmis beiðni um íslensk vegabréf, sem síðan mætti falsa og láta erindreka Kominterns nota. Rosenfeldt taldi mikið verk óunnið í skjalasöfnum, bæði í Rússlandi og annars staðar.
Allt það, sem Rosenfeldt sagði, renndi frekari stoðum undir það, sem við Þór Whitehead og Snorri G. Bergsson höfum haldið fram í bókum okkar og eru viðtekin sannindi í öðrum löndum, að kommúnistaflokkar höfðu algera sérstöðu í stjórnmálum. Kommúnistaflokkurinn íslenski var ekki venjulegur lýðræðisflokkur, heldur stefndi að byltingu og var í nánum tengslum við einræðisstjórn, sem studdi hann eftir megni með fjárframlögum og ráðgjöf. Þetta breyttist lítt, þótt íslenskum kommúnistum tækist 1938 að fá til liðs við sig nokkra hrekklausa jafnaðarmenn og stofna Sósíalistaflokkinn. Hið sama gerðu þeir í Finnlandi og Austur-Þýskalandi eftir stríð. Þar buðu kommúnistar ekki fram undir eigin nöfnum, heldur í finnska Lýðræðisbandalaginu og þýska Einingarflokknum. En úlfurinn leyndist áfram undir sauðargærunni.
Rosenfeldt er vandvirkur, yfirlætislaus fræðimaður, sem segir ekki meira en hann getur staðið við. Hann hlaut árið 2009 H. O. Lange verðlaun Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn (Det Kongelige Bibliotek, svarar til Þjóðarbókhlöðu hér) fyrir bók um Lenín.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook