Upp er skorið, engu sáð

Halldór Blöndal vitnaði nýlega í Vísuhorni sínu í Morgunblaðinu í stökuna:

Upp er skorið, engu sáð,
allt er í varga ginum.
Þeir, sem aldrei þekktu ráð,
þeir eiga að bjarga hinum.

Hafði Halldór vísuna eftir Valtý Stefánssyni ritstjóra, sem vitnaði í hana í Lesbók Morgunblaðsins 20. nóvember 1927 í grein um tíu ára afmæli byltingar bolsévíka. Sagði Valtýr, að stakan hefði hrotið úr munni hagyrðings, eftir að bera tók á bolsévíkum á Akureyri.

Brynjólfur Steingrímsson sagði þá í tölvuskeyti til Halldórs, sem birtist í Vísnahorninu 30. júlí 2012, að vísan væri eftir afa sinn, Egil Jónasson á Húsavík, og Friðrik Jónsson póst (sem var raunar á Helgastöðum, ekki Halldórsstöðum, eins og Brynjólfur segir). Vísan hefði ekki verið tengd stjórnmálabaráttu.

En Valtýr Stefánsson hafði rétt fyrir sér um stökuna. Ég rannsakaði faðerni hennar fyrir bók mína 2010, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku. Til er samtímaheimild um hana. Í grein eftir Pál Árdal í Degi 30. október 1924 segir, að þessi staka sé eftir Sigmund Sigurðsson, úrsmið á Akureyri. Hún sé ekki eftir Pál sjálfan eða aðra, sem hún var kennd. Og tilefnið var augljóst. Snemma árs 1924 fluttust þrír ungir áróðursmenn bolsévíka til Íslands, þeir Einar Olgeirsson, Brynjólfur Bjarnason og Ársæll Sigurðsson.

Lét Einar þegar mikið að sér kveða á Akureyri, svo að Sigmundi úrsmiði þótti nóg um og kastaði stöku sinni fram, og er hún enn í fullu gildi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband