26.8.2012 | 18:53
Móðurmál án föðurlands
Sú gamla og gráa kenning, að máttur sé réttur og ráði jafnan úrslitum, birtist í ýmsum myndum. Til dæmis sagði bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Robert Altman eitt sinn: Hvað er sértrúarsöfnuður? Of fámennur hópur til að teljast minnihlutahópur.
Á meðan gyðingar höfðu ekki eigið ríki, var hið forna mál þeirra, hebreska, móðurmál án föðurlands, eins og Aðalbjörg Sigurðardóttir komst að orði. Þegar gyðingar stofnuðu ríki, ákváðu þeir að nota þar hebresku, en gengu fram hjá jiddísku, sem margir gyðingar í Mið- og Austur-Evrópu höfðu talað, en hún er blendingur úr þýsku, hebresku og arameísku. Þá sagði bandaríski málfræðingurinn Max Weinreich af nokkurri beiskju á jiddísku: A shprakh iz a diyalekt mit an armey un a flot. (Tungumál er mállýska, sem styðst við her og flota.) Nú er jiddískan nær dauð, og ólíkt latínunni, sem einnig er dauð, á hún engin afkvæmi.
Íslenska er enn lifandi mál, þótt hún styðjist hvorki við her né flota. Tilveruréttur hennar hvílir ekki á mætti okkar, heldur í senn á vilja okkar til að halda uppi sjálfstæðu tungumáli og viðurkenningu grannþjóðanna á sérstöðu okkar. Þeirrar viðurkenningar njóta til dæmis ekki Kúrdar, sem eru sérstök þjóð með sérstakt tungumál, en ekkert ríki, enda dreifast þeir um fjallahéruð Tyrklands, Írans og Íraks.
Íslendingar eiga sér ekki góðs von í heimi, sem stjórnast af lögmáli franska greifans Bussy-Rabutins: Comme vous savez, Dieu est d'ordinaire pour les gros escadrons contre les petits. (Eins og þér vitið, er Guð jafnan hliðhollur fjölmennum hersveitum gegn fámennum.) Er þetta ekki lögmál ríkisins?
Íslendingar verða heldur að treysta hinum orðsnjalla heimspekingi Voltaire: Dieu n'est pas pour les gros bataillons, mais pour ceux qui tirent le mieux. (Guð er ekki hliðhollur fjölmennustu hersveitunum, heldur bestu skyttunum.) Er þetta ekki lögmál markaðarins?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook