13.8.2012 | 11:46
Hver kom í veg fyrir ráðningu Þorgerðar Katrínar?
Eitt furðulegasta stjórnsýslumál síðari tíma, sem þau dr. Sigurbjörg og aðrir stjórnsýsluspekingar Háskóla Íslands hafa þó verið einkennilega þöglir um, er, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, leikaradóttir, lögfræðingur og fyrrverandi útvarpskona, alþingismaður og menntamálaráðherra, var ekki valin úr hópi umsækjenda til að veita menningarhúsinu Hörpu forstöðu.
Hafði þó meiri hluti stjórnar menningarhússins ákveðið að styðja Þorgerði Katrínu til starfsins, enda er hún með þá menntun, reynslu af mannaforráðum og hæfileika í mannlegum samskiptum, sem allt er nauðsynlegt í þetta vandasama starf.
Hver kom í veg fyrir ráðninguna? Heimildarmenn mínir, sem ég tel áreiðanlega, segja, að það hafi verið Dagur Bergþóruson Eggertsson. Hann ræður sem kunnugt er öllu í borgarstjórn, þótt Jón Gnarr sé skráður borgarstjóri, og Dagur setti hnefann í borðið: Engin samvinna verður milli menningarhússins og Reykjavíkurborgar, ef Þorgerður Katrín er ráðin. Eftir það treysti stjórnin sér ekki til að ráða Þorgerði Katrínu.
Þess í stað vildi Dagur ráða Halldór Guðmundsson, sem er innsti koppur í búri Samfylkingarinnar (og vissulega um margt hæfur maður), og varð það úr.
En þögn femínistanna, sem sitja á fullum launum í Háskólanum við að telja kynjaskiptingu á ýmsum sviðum mannlífsins, er ekki síður æpandi en stjórnsýsluspekinganna á sama stað: Eiga kröfur femínista um, að ekki sé gengið fram hjá hæfum konum, aðeins við um vinstri sinnaðar konur?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook