Hvers vegna eru nútímamenn greindari en forfeður þeirra?

Dýrafræðingurinn og vísindahöfundurinn dr. Matt Ridley flutti afar fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur föstudaginn 27. júlí, í Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefur verið settur á Netið, á heimasíðu Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, þar sem menn geta skoðað hann. Mörg viðtöl Ridleys og erindi eru þegar til á Netinu, til dæmis viðtal Reason Foundation hér og erindi í Zürich hér og erindi fyrir Google hér.

Ridley telur ýmsar góðar ástæður til bjartsýni um framtíð mannkyns. Hann benti til dæmis á það, að menn væru samkvæmt greindarmælingum að verða greindari, að minnsta kosti með efnuðum Vesturlandaþjóðum. Þetta er í fljótu bragði einkennilegt, því að vandaðar greindarmælingar eiga að vera þannig úr garði gerðar, að þær séu óháðar tíma og rúmi. Ef tveir menn eru jafngreindir í Senegal og Sviss, þá eiga þeir að mælast jafngreindir. Hvort sem maður er vel eða illa upp alinn, á hann að mælast jafngreindur. Tveir jafngreindir menn á 19. og 21. öld eiga að mælast jafngreindir, annars er eitthvað að mælingunum.

Eflaust eru einhver greindarpróf háð aðstæðum. En Ridley bendir á eina skýringu á aukinni greind á okkar dögum. Hún er, að ekki leggjast nú eins og áður á börn í sama mæli sjúkdómar, sem hafa vond áhrif á heilastarfsemina, og að víða þjást þau nú ekki af vannæringu, sem líka dregur úr þroska þeirra. Velmegun, hlý og traust húsakynni og nægur og góður matur, mynda skilyrði til að vaxa og þroskast eftir eigin lögmáli. Þar starfar heilinn best.

Ein skjámynd Ridleys á fyrirlestrinum var sérstaklega athyglisverð. Til vinstri var útskorinn steinn með hvössum brúnum, sem frummaður fyrir um milljón árum hefur gert og notað til að drepa og skera í sundur dýr merkurinnar sér til matar. Hann og hann einn gerði þennan hníf, og hann var gerður úr einu efni. Til hægri var tölvumús frá okkar dögum. Til þess að gera hana þurfti atbeina þúsunda og jafnvel milljóna manna úr öllum heimshornum, þar sem sumir framleiddu plast og aðrir örgjafa, suma sömdu forrit og aðrir hönnuðu lögun músarinnar, sumir sinntu innkaupum og aðrir starfsmannahaldi í ólíkum fyrirtækjum, sem komu að gerð músarinnar, og svo framvegis.

Hvítigaldur markaðarins er einmitt, að hann er vettvangur samvinnu óteljandi einstaklinga, sem nýta sér þjónustu hver annars án þess að þekkja hver annan. Þessi samvinna birtist í frjálsum viðskiptum á markaði, en verðið, sem þar myndast, leiðbeinir okkur um, hvernig hæfileikar okkar nýtast öðrum best. Þannig verður til ein risastór og skilvirk samvitund, sameiginlegur reynslusjóður, sem frumstæðir þjóðflokkar hafa ekki til ráðstöfunar. Á steinöld studdist maður aðeins við sína vitund, sína þekkingu og kunnáttu, en gat hvorki nýtt sér þekkingu né kunnáttu annarra manna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband