Hvers vegna er Stefán Ólafsson með mig á heilanum?

Þeir, sem lesa reglulega blogg Stefáns Ólafssonar á Netinu, telja sig sjá, að hann sé með mig á heilanum. Þeir hafa spurt mig, hvort ég viti ástæðuna. Ég hef svarað því til, að ég hafi ekki hugmynd um hana, en sett fram nokkrar tilgátur.
 
Stefán er óánægður með það, að ég kom upp um, þegar hann brást trúnaði 1996 sem forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Við Hreinn Loftsson höfðum í kyrrþey látið stofnunina gera skoðanakönnun um fylgi við Davíð Oddsson í komandi forsetakjöri. Stefán sagði ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðu könnunarinnar, þótt hann væri bundinn trúnaði.

Stefán er líka óánægður með það, að ég kom upp um eina talnabrellu hans. Hann hafði mótmælt staðhæfingum Árna Mathiesens fjármálaráðherra um, að á Norðurlöndum væru tekjur lífeyrisþega að meðaltali hæstar á Íslandi árið 2004. Stefán kvað svo ekki vera og deildi með fjölda lífeyrisþega í heildargreiðslur lífeyris og fékk út lægri meðaltekjur þeirra. En hann gáði ekki að því, að hann deildi í raun í heildargreiðslurnar með fjölda fólks á lífeyrisaldri, ekki fjölda lífeyrisþega. Á Íslandi vinnur fjöldi fólks á lífeyrisaldri og þiggur ekki lífeyri. Það ár, sem um var að ræða, voru lífeyrisþegar 26.000, en fólk á lífeyrisaldri 31.000. Ég hef síðan í gamni kallað Stefán Mr. Five Thousand: Það er ekki ónýtt að geta lækkað tölu með að bæta fimm þúsund við í nefnarann.

Stefán er einnig óánægður með það, að ég kom upp um villu í útreikningum hans á tekjuskiptingu á Íslandi borið saman við grannríkin. Hann hafði reiknað út Gini-stuðul fyrir Norðurlöndin, þar á meðal Ísland, og Bretland og Bandaríkin, og komist að þeirri niðurstöðu, að stuðullinn hefði hækkað mjög á Íslandi árin 1995–2004, en það merkir, að tekjuskiptingin var orðin ójafnari, breiðara bil á milli ríkra og fátækra. En hann hafði tekið með í tölunum um Ísland það, sem sleppt var í tölunum fyrir aðrar þjóðir, sem var söluhagnaður af hlutabréfum. Breytti það miklu um niðurstöðuna. Hann bar því saman epli og appelsínur, ekki íslensk epli og dönsk epli. Útreikningar hans á Gini-stuðlum voru marklausir, rangir.

Allir gera mistök. Ég fór til dæmis of nálægt textum Halldórs Kiljans Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans, þótt ég væri þar í góðri trú og gerði hið sama og aðrir höfðu einmitt hælt Laxness fyrir. En ég viðurkenndi þessi mistök mín og bætti um betur. Stefán Ólafsson hefur aldrei viðurkennt nein mistök sín. Hann hefur aldrei beðist afsökunar á trúnaðarbroti sínu sem forstöðumanns Félagsvísindastofnunar. Hann hefur aldrei bætt fyrir talnabrellu sína um lífeyristekjur. Hann hefur aldrei leiðrétt villu sína í útreikningum á Gini-stuðlum. Hann ræðst hins vegar á mig af þeirri hörku, að fólki finnst, að hann sé með mig á heilanum. Ég hef hér reynt að skýra þessa hegðun hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband