19.7.2012 | 16:03
Hvers vegna þegja þeir um þetta hneyksli?
Á stuðning okkar við málfrelsi reynir ekki, þegar aðrir segjast vera sammála okkur. Á hann reynir, þegar aðrir láta í ljós skoðanir, sem við getum ekki tekið undir og teljum jafnvel alrangar. Snorri í Betel sagði á heimasíðu sinni:
Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.
Fyrir þessi ummæli er hann rekinn úr kennarastarfi á Akureyri. Ég er ekki sammála Snorra í Betel, satt að segja algerlega ósammála honum, en hann átti rétt á þessari skoðun. Hann lýsir afstöðu tiltekinna trúarsafnaða til tiltekins hóps án þess að hvetja á neinn hátt til þess, að þeim hópi sé gert mein.
Ummælin féllu ekki heldur í kennslustund, heldur inni á heimasíðu hans, sem menn urðu að heimsækja sérstaklega til þess að geta lesið þau.
Auðvitað getur þurft að setja hömlur á málfrelsi kennara. Ef slíkur maður er til dæmis nasisti eða kommúnisti og vísar því á bug, sem sannað er, að Hitler, Stalín og Maó hafi verið einhverjir grimmustu fjöldamorðingjar sögunnar, og fullyrðir jafnframt, að helfarir hinna ólánssömu þegna þeirra hafi aldrei farið fram, þá er ástæða til að staldra við. Ef hann hvetur til ofbeldis og illvirkja, til dæmis blóðugra mótmælaaðgerða gegn gyðingum eða borgarastéttinni, þá hefur líka verið stigið skref í átt frá ógeðfelldri skoðun til ólöglegs verknaðar.
Og hvar á þetta að enda? Áskell Örn Kárason, sálfræðingur og yfirmaður barnaverndar á Akureyri, skrifaði inn á Facebook-síðu vegna áfloga á leikvelli, þar sem svartur maður og hvítur áttust við (23. febrúar 2011): Djös. svertingjar. Á að reka hann líka?
Brottrekstur Snorra er hneyksli. En hvers vegna þegja allir málfrelsispostularnir, sem jafnan eru hinir háværustu, um málið? Hvar er málfrelsissjóður Páls Skúlasonar? Hvenær blogga Illugi Jökulsson og félagar hans um þetta? Eigum við von á grein frá Guðmundi Andra?Rósa Lúxemburg sagði, að frelsið væri ætíð frelsi þeirra, sem hugsa öðru vísi. Hún hafði rétt fyrir sér. Menn þurfa ekki frelsi til að vera samþykkir rétttrúnaði hvers tíma. Þá þurfa þeir aðeins að kunna eftiröpunarlistina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook