Ósigur stjórnarinnar

Forsetakjörið snerist að nokkru leyti upp í uppgjör stjórnar og stjórnarandstöðu, þar sem stjórnarsinnar studdu Þóru Arnórsdóttur og stjórnarandstæðingar Ólaf Ragnar Grímsson. Vitað er, að þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon unnu á bak við tjöldin að því, að Þóra færi fram, og þau studdu hana með ráðum og dáð. Sjálfur hef ég gott eitt um Þóru að segja. Hún hefur til dæmis jafnan verið óhlutdræg í starfi, þótt vinnustaður hennar, Ríkisútvarpið, dragi mjög taum stjórnarinnar.

Ekki er vandséð, hvers vegna sjálfstæðismenn og framsóknarmenn kusu margir Ólaf Ragnar Grímsson. Hann kom í veg fyrir, að stjórnarflokkunum tækist það ætlunarverk sitt að hengja þungan myllustein um háls Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þar sem var Icesave-krafa Breta og Hollendinga (Icesave-skuldin á máli Ríkisútvarpsins). Hún átti að vera hinn sögulegi reikningur fyrir sölu bankanna, sem vinstri flokkarnir tveir hugðust veifa framan í Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk næstu áratugi. Þess vegna sömdu fulltrúar vinstri flokkanna svo hrapallega af sér í Icesave-málinu. Þeir tóku flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni.

Jafnframt mátu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn það við Ólaf Ragnar, hversu skörulega hann kemur jafnan fram fyrir hönd Íslands erlendis. Það er eins og hann vilji gæta hagsmuna þjóðarinnar af miklu meiri alvöru en þau Jóhanna og Steingrímur, sem kikna í hnjáliðum, þegar þau heyra erlenda tungu talaða, og vilja eta úr lófa Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Kjósendur Ólafs Ragnars þekkja gallana í fari hans og vona, að miklir kostir verði þeim yfirsterkari.

Sigur Ólafs Ragnars er ósigur stjórnarinnar og sigur stjórnarandstöðunnar, þótt hún hafi auðvitað ekki sent hann fram eða staðið að framboði hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband