Sumarhefti Þjóðmála

Timaritið Þjóðmál hefur nú komið út í átta ár undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar, rithöfundar og stjórnmálafræðings. Ritstjórinn skrifar einhverjar skeleggustu stjórnmálagreinar, sem birtast um þessar mundir, og er ég sammála honum um flest, nema hvað mér finnst hann heldur óvinsamlegur ýmsum auðmönnum, en þá tel ég flesta hið mesta þarfaþing.
 
Nýlega kom út annað hefti Þjóðmála ársins 2012, og á ég þar eina grein, „Göfuga villimenn,“ á 34.–40. bls. Hún er þáttur í rannsóknarverkefni, sem ég annast í Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting.“ Ég ræði þar um goðsögninni gömlu um það, að forfeður okkar hafi verið saklausir og göfugir villimenn, sem reikað hafi sælir um sólbjartar veiðilendur. Á okkar dögum birtist þessi goðsögn í ýmsum undarlegum myndum, til dæmis í kenningu bandaríska mannfræðingsins Margaret Meads um uppvöxt á Samóa-eyjum, sem fræðimenn hafa hrakið, og í furðusögum af nýfundnum ættflokkum í fjarlægum skógum.
 
Margvíslegt forvitnilegt efni er í heftinu, þar á meðal vel rökstudd grein eftir Jón Magnússon hæstaréttarlögmann um úrskurð Landsdóms í ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde, en allt það mál er hið argasta hneyksli. Full ástæða er til að mæla með Þjóðmálum, ekki síður þessu hefti en hinum eldri.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband