7.5.2012 | 14:34
Prakkaraskapur Helgu Kress
Ég gat ekki annað en kímt, þegar ég las frétt mbl.is um það, að fullt hefði verið út að dyrum á fyrirlestri Helgu Kress í Háskólanum í dag. Minn gamli kennari og prófarkalesari er alltaf sami prakkarinn. Hún hafði boðað, að í fyrirlestrinum myndi hún gagnrýna nokkur rit, þar á meðal bók Böðvars Guðmundssonar, Enn er morgunn. Auðvitað vakti hún með því forvitni margra, enda er Böðvar fyrrverandi eiginmaður hennar og efnið í hinni ágætu skáldsögu hans um sumt sótt í ævi tengdaföður hans, Brunos Kress málfræðings. En Helga tilkynnti áheyrendum, að hún hefði ekki nægan tíma til þess að ræða um þessa bók og nokkrar aðrar, sem minnst hafði verið á í fundarboði, heldur yrði hún að einskorða sig við skáldsögu eftir Hallgrím Helgason.
Og það var ekki nóg með, að Helga gabbaði forvitið fólk til að sækja fyrirlestur sinn, heldur lék hún sér líka að því. Í frétt mbl.is segir: Helga sagði að munurinn á meðferð Halldórs Laxness á persónum sínum væri sá að Halldór skaðaði ekki sínar persónur. Það gerði Hallgrímur á hinn bóginn.
Svo að Halldór Kiljan Laxness skaðaði ekki söguhetjur sínar eða fyrirmyndir þeirra úr veruleikanum? Hvað um Ólaf Kárason Ljósvíking, sem stendur nærri Magnúsi Hj. Magnússyni og myndi teljast barnaníðingur á nútímamáli? Eða Pétur Þríhross, sem á sér augljósa fyrirmynd í Jónasi Jónssyni frá Hriflu? Eða forsætisráðherrann í Atómstöðinni, sem er vitaskuld Ólafur Thors, eins og Einar Olgeirsson og fleiri bentu á? Eða Búa Árland, en heimili hans minnir mjög á heimili Guðmundar Vilhjálmssonar forstjóra, mágs Ólafs Thors? Ekki skal gleyma Ólafi Noregskonungi Haraldssyni í Gerplu, en það tók Sigurð Nordal mörg ár að jafna sig á meðferðinni þar á þessum þjóðardýrlingi Norðmanna. (Um þetta má allt lesa nánar í þremur bindum ævisögu Laxness eftir gamlan nemanda Helgu, Hannes Hólmstein Gissurarson.)
Laxness var að því leyti líkur Dante, að hann notaði einmitt skáldskapinn til að ná sér niðri á andstæðingum sínum. Þetta vissi Helga Kress vel, en hún kaus að gera gys að áheyrendum sínum, koma upp um fáfræði þeirra. Alltaf sami prakkarinn, Helga!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook