7.5.2012 | 01:05
Hvort hafa þau áhyggjur af fátæku fólki eða ríku?
Jóhanna Sigurðardóttir hefur það sigri hrósandi eftir einum af blaðafulltrúum sínum, Stefáni Ólafssyni félagsfræðingi, að munurinn á tekjum hinna tekjulægstu og hinna tekjuhæstu hafi minnkað.
Þetta er eflaust rétt. En þau Jóhanna og Stefán leggja minni áherslu á hitt, að kjör hinna tekjulægstu hafa líka versnað. Kjör þeirra hafa hins vegar ekki versnað eins mikið og kjör hinna tekjuhæstu.
Þau Jóhanna og Stefán koma upp um það, að þau eru ekki fylgismenn bandaríska heimspekingins Johns Rawls, sem upplýstir íslenskir jafnaðarmenn hafa þó viljað kenna sig við.
Rawls sagði, að það skipulag væri réttlátast, þar sem kjör hinna tekjulægstu væru eins góð og þau gætu framast orðið. Fyrir honum var aðalatriðið, að kjör hinna tekjulægstu bötnuðu. Hann hafði áhyggjur af hinum fátæku, ekki hinum ríku.
Jóhanna og Stefán hafa hins vegar engar áhyggjur af hinum fátæku. Þeim er sama, þótt kjör þeirra hafi versnað. Þau hafa aðeins áhyggjur af hinum ríku. Mikið skal til vinna, svo að kjör þeirra versni.
Margrét Thatcher lýsti þessu vel í umræðum í breska þinginu, sama dag og hún lét af völdum. Sósíalistar telja aðalatriðið vera, að bilið milli ríkra og fátækra, hinna tekjuhæstu og hinna tekjulægstu, sé sem minnst. Þeir skeyta síður um hitt (þótt John Rawls hafi lagt áherslu á það), hver kjör hinna fátæku, hinna tekjulægstu, séu.
Það hefur hins vegar komið skýrt fram í rannsóknum, að kjör hinna tekjulægstu eru best við kapítalisma. Og það, sem mikilvægara er: Tækifæri þeirra til að brjótast úr fátækt til bjargálna eru flest við kapítalisma.
Munurinn á vinstri mönnum eins og Jóhönnu Sigurðardóttur og Stefáni Ólafssyni og okkur hægri mönnum er, að þau hafa áhyggjur af góðum kjörum hinna ríku, en við höfum áhyggjur af lökum kjörum hinna fátæku. Þau vilja minnka muninn á milli ríkra og fátækra, en við viljum fjölga tækifærum til að brjótast úr út fátækt, hækka tekjur sínar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook