Eitt gras tekið

Hér hefur verið bent á, að kvæði Steins Steinars, „Gras,“ sem birtist í Alþýðublaðinu 7. júní 1936, var nánast lausleg þýðing á samnefndu kvæði bandaríska ljóðskáldsins og sagnfræðingsins Carls Sandburg, þótt Steinn bætti nokkru við frá eigin brjósti. Þess var ekki getið í Alþýðublaðinu, en það var tekið fram í bókinni Ljóð, sem kom út eftir Stein 1937.

Leifur Haraldsson orti af þessu tilefni:

Um hirðusemi er hneyksli næst að fjasa,

sú höfuðdygð af Guði er mönnum veitt,

hjá Carli Sandburg kennir margra grasa,

menn komast varla hjá að taka eitt.

Þótt Steinn væri manna stríðnastur, þoldi hann illa stríðni annarra. Eftir að vísan komst á kreik, rak hann Leif með þjósti burt af borði því, sem hann var fastagestur á í Ingólfskaffi í Alþýðuhúsinu við Ingólfsstræti (en það kaffihús var í kjallaranum, þar sem gistihúsið 101 er nú).

Vinur þeirra Steins og Leifs, Dósóþeus Tímóteusson (hann hét þessu nafni í raun og veru), orti vísu til sátta:

Steinn, sem stolið hefur mest,

stolið mest af annars grasi,

hann mun, þegar sól er sest,

sitja borð með Matthíasi.

Ekki er víst, að þessi vísa hafi friðað Stein. Hermt er, að Steinn hafi hefnt sín á Leifi með vísunni alkunnu, sem hann hafi ort í orðastað hans og oft er sungin á mannamótum:

Kvenmannslaus í kulda og trekki

kúri ég volandi,

þetta er ekki, ekki, ekki,

ekki þolandi.

Leifur var enginn kvennaljómi, lágvaxinn og óásjálegur og stamaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband