31.3.2012 | 01:07
Hvað þarf til?
Mér finnst mál Gunnars Þ. Andersens, fyrrverandi forstöðumanns Fjármálaeftirlitsins, Ársæls Valfells lektors og þeirra félaga allt hið furðulegasta. Eitthvað býr að baki, og veit ég ekki, hvað það er. Lét Gunnar ekki að stjórn?
Kom hins vegar einhverjum á óvart, að Gunnar laumaði upplýsingum í fjölmiðla til að reyna að ná sér niðri á andstæðingum sínum? Hann varð fyrst landsfrægur fyrir það í Hafskipsmálinu 1985.
Framganga Ársæls Valfells er líka mjög óvenjuleg, þótt auðvitað beri að fagna því, þegar Íslandspósti og bílstjórunum á Hreyfli er veitt samkeppni um pakkasendingar í hús í Reykjavík. En ég hnýt um eitt. Háskólayfirvöld sneru sér til Ársæls Valfells og báðu um skriflegar skýringar á hlut hans að málinu. Hvert var tilefnið? Spurningar fréttamanna? Engar niðurstöður hafa fengist í þessu máli, hvorki um hlut Ársæls né annarra. Ekkert skýrt og afmarkað erindi lá á borði háskólayfirvalda.
Fara háskólayfirvöld í manngreinarálit? Hvað þarf til, að þau hreyfi sig? Árið 2008 birti Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, brot úr dagbókum sínum. Þar er fært inn 8. maí 1996:
Stefán Ólafsson félagsfræðingur sagði okkur Styrmi í morgun í trúnaði að nokkrir vinir Davíðs Oddssonar hefðu beðið Félagsvísindastofnun um að gera könnun á fylgi hans ef hann færi í forsetakjör. Könnunin var gerð skömmu fyrir páska en þó eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um framboð sitt. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að Ólafur fengi um 60% af fylgi þeirra 80% sem svöruðu og tóku afstöðu. Ég man ekki fylgi annarra frambjóðenda en það var hverfandi. Og sjálfur Davíð Oddsson hlaut ekki nema um 10% atkvæða. Margir voru alfarið á móti honum, aðrir vildu að hann héldi áfram í núverandi störfum. Stefán taldi að hann hefði getað reiknað með eitthvað yfir 30% atkvæða ef hann hefði farið í framboð. En þá hefðu þeir sem vildu að hann héldi áfram núverandi störfum kosið hann þegar á hólminn væri komið.
Þetta dagbókarbrot vakti nokkra athygli, og skrifaði DV meðal annars um þetta. Ljóst er, að Stefán, sem þá var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskólans, braut freklega af sér með því að segja þeim Matthíasi og hinum ritstjóra Morgunblaðsins, Styrmi Gunnarssyni, frá þessari skoðanakönnun, sem Hreinn Loftsson hafði látið Félagsvísindastofnun gera í strangasta trúnaði, en ekki síst að ráði mínu, sem treysti þá Stefáni.
Nú er spurningin: Af hverju sneru háskólayfirvöld sér ekki til Stefáns Ólafssonar sumarið 2008 og báðu um skriflegar skýringar í tilefni fjölmiðlafrétta um trúnaðarbrot hans? Það virðist þó miklu augljósara, að hann hafi brotið af sér á þann hátt, að Háskólanum kæmi við, en Ársæll Valfells. Háskólayfirvöld eiga að fara eftir föstum, almennum, fyrirsjáanlegum reglum, ekki hrekjast undan áreitni fjölmiðlamanna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook