Þrjú erindi

Í mars 2012 hef ég flutt þrjú erindi.

Hið fyrsta var á fundi frjálshyggjudeildar Sambands ungra sjálfstæðismanna í Valhöll fimmtudaginn 8. mars. Þar talaði ég um hægri stefnu. Ég taldi, að allir hægri menn ættu að geta sameinast um fjögur baráttumál: að skattar ættu að vera hóflegir, svo að ekki dragi úr vinnusemi og verðmætasköpun; að oftast væri best að tryggja umhverfisvernd með því að finna umhverfisverndara, skilgreina einkaeignarrétt að gæðum; að hlutverk fjármagnseigenda og framkvæmdamanna í framsæknu og vaxandi hagkerfi væri mikilvægt; og að aldrei mætti gleyma fórnarlömbum alræðisstefnu 20. aldar, nasisma og kommúnisma.

Annað erindið var í stjórnmálaskóla Heimdallar laugardaginn 10. mars. Þar talaði ég um stofnun og séreðli Sjálfstæðisflokksins. Stefnu hans mætti lýsa með orðum Landnámu um Steinunni gömlu, ræðu Einars Þveræings gegn ágjörnum konungum og fleygum orðum tveggja Íslendinga á 20. öld. Loftur Bjarnason sagði: „Ég get sofið á næturna, þótt öðrum gangi vel.“ Og reykvíski smákapítalistinn Júlíus skóari sagði: „Sjálfstæði er að sækja það eitt til annarra, sem greitt er fullu verði.“ En þótt Sjálfstæðisflokkurinn væri rammíslenskur flokkur, væri hann auðvitað hliðstæður frjálslyndum, borgaralegum flokkum annars staðar á Vesturlöndum, sem sæktu rök í boðskap Johns Lockes um takmarkað ríkisvald og kenningu Adams Smiths um sjálfsprottna samvinnu.

Þriðja erindið var á fundi Frjálshyggjufélagsins á Sólon fimmtudaginn 15. mars. Þar talaði ég um íslenska kommúnista 1918–1998, en um það efni gaf ég út bók fyrir síðustu jól. Ég ræddi meðal annars um ofbeldi íslenskra kommúnista og sósíalista, um njósnir Kremlverja á Íslandi og um rússagullið, sem skipti verulegu máli í stjórnmálabaráttunni hér á landi. Þótt jafnaðarmenn og kommúnistar deildu sama markmiði á 20. öld, gengu þeir víðast í tveimur fylkingum, af því að kommúnistar vildu aldrei hverfa frá ofbeldi sem hugsanlegri leið til valda; um það snerist ágreiningur þessara tveggja fylkinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband