17.3.2012 | 10:37
Valdsmenn standi ekki fyrir sólinni
Þýski rithöfundurinn Bertolt Brecht skrifaði í leikritinu Lífi Galileós 1939: Hamingjusnautt er það land, sem þarf á hetjum að halda. Hann átti við það, að þær þjóðir væru sælastar, sem lentu ekki í slíkum háska, að þær þyrftu að kalla sér til fulltingis á hetjur með brugðinn brand.
Íslenska skáldið Jakob Thorarensen hafði orðað svipaða hugsun í kvæðinu Vergangi 1922:
Einn háski í launsát liggur
gegn landsins glöðu vonum,
og hafið gát á honum,
það hermir gömul spá:
Hann felst í foringjonum,
þá Fróni liggur á.
Ef til vill var það í þessum anda, sem Jón Magnússon, forsætisráðherra 1917-1922 og 1924-1926, sagði: Þeir eru alltaf að stagast á því, að ég sé enginn skörungur. En hvenær hef ég sagst vera skörungur, og hvað ætla þeir með skörung að gera? Jón var í eðli sínu mannasættir.
Skúli Þórðarson sagnfræðingur sagði nemendum sínum í Gagnfræðaskóla Austurbæjar um miðja síðustu öld: Þar sem kóngarnir eru lélegir, þá líður fólkinu vel.
Endurómar þar speki fornkínverska spekingins Laó Tse: Stjórn, sem virðist duglaus, er oft affarasælust fyrir þjóðina. Ströng stjórn, sem skiptir sér af öllu, veldur þjóðinni ófarnaði.
Stundum þarf á hetjum að halda. En oftast geta þjóðirnar bjargað sér af eigin rammleik í starfi og leik. Þá geta þær sagt hið sama við valdsmennina og forngríski spekingurinn Díógenes við Alexander mikla, sem spurði, hvort veita mætti honum einhverja ósk: Já, að þú standir ekki fyrir sólinni.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 10. mars 2012.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook