14.3.2012 | 09:41
Grein mín á Bloomberg
Bloomberg-fréttaveitan, sem sérhæfir sig í viðskiptafréttum, bað mig að blogga fyrir sig um landsdómsmálið, og er bloggið hér á ensku, en það birtist fyrst að kvöldi 12. mars 2012.
Ég bendi þar á, að réttarhöldin yfir Geir eiga rætur sínar í stjórnmálasjónarmiðum: Lítill meiri hluti þingmanna vildi ákæra hann, og greiddu flestir þingmenn atkvæði eftir flokkslínum. Með þessu var Geir órétti beittur.
Við fall íslensku bankanna notuðu vinstri menn tækifærið til að gera upp sakir við gamla fjandmenn, en árin 19912004 var atvinnufrelsi aukið og hagkerfið opnað með þeim afleiðingum, að það varð viðkvæmara fyrir erlendum hagsveiflum.
Davíð Oddsson, sem haft hafði forystu um opnun hagkerfisins, sölu ríkisfyrirtækja og skattalækkanir, var flæmdur úr Seðlabankanum, sem hafði áður átt að heita sjálfstæður, og Geir H. Haarde var ákærður fyrir vanrækslu í starfi. Davíð var eini maðurinn í trúnaðarstöðu, sem varað hafði við útþenslu bankanna.
Þessar hefndaraðgerðir virðast þó vera að snúast í höndum vinstri manna og sumir þeirra að sjá að sér. Til dæmis hefur Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lýst því yfir opinberlega, að hann telji ranglátt að gera aðeins einn stjórnmálamann ábyrgan lagalega fyrir falli bankanna.
Íslendingar eru líka að ná áttum eftir áföll síðustu ára. Þeir sjá, að fall íslensku bankanna var enginn einstæður viðburður í veraldarsögunni, heldur aðeins einn þátturinn af mörgum í einhverri verstu lánsfjárkreppu, sem riðið hefur yfir heiminn í hátt í hundrað ár. Grikkland og Írland eru ekki betur stödd lönd en Ísland, en munurinn sá, að Íslendingar neituðu að bjarga lánardrottnum bankanna (af því að þeir gátu það ekki, en það reyndist vera lán í óláni).
Íslendingar eru smám saman að læra, að í stað þess að leita uppi sökudólga ætti að reyna að finna leikreglur, sem laða fram skynsamlega hegðun manna. Það er engin frétt, að bankamenn láti stjórnast af græðgi, en þeirri græðgi þarf að snúa til almannaheilla í stað þess eins að andvarpa yfir henni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook