Ísland klukkunnar

Í Íslandsklukkunni bregður Halldór Kiljan Laxness upp mynd af Íslendingum, þegar þeir voru einna verst staddir, á seytjándu og átjándu öld. Sumir þeirrar tíðar menn sögðu svipað. Þeir voru síður en svo ánægðir með að búa á Íslandi. Þeim leið bersýnilega eins og fólki í flóttamannabúðum.

Oddur Einarsson biskup kvað til dæmis svo að orði í Íslandslýsingu nemma á seytjándu öld: „Allir Íslendingar munu með réttu geta harmað það og talið til einnar mestu ógæfu sinnar, að þeim hefur eins og fyrir einhver sérstök örlög blátt áfram verið ýtt út í nánast ysta horn alheimsins og hálfgert útskúfað frá hinum ágætustu þjóðum.“

Þorlákur Skúlason biskup skrifaði í bréfi til danska fornfræðingsins Óla Worms 1626: „Eg hef af aumum örlögum hrakist burt á þennan útkjálka og verð að lifa innan um ómenntað, óþægilegt og dónalegt fólk, hin eina huggun mín er að hugsa um það, hve lífið er stutt, og um tilkomandi samvistir vorar á himnum.“

Jón Ólafsson Grunnvíkingur lét svo um mælt hundrað árum síðar í orðabókarhandriti: „Ísland má raunar kalla einslags stórt hrúgald af grjóti, með grasgeirum frá sjó upp eftir skorað. Að sönnu er þar haglendi á sumardag fyrir naut, kvikfé og hesta, veiðistöður til fiskifanga víða við sjó, oft ganga þar stór harðindis ár, með löngum köflum. Landslýður óróasamur með óþokkamál, og eyðir sjálfum sér, yfrið ósamþykkt og sundurlynt fólk, ágjarnt líka, óhreinlynt og illa geðjað. Þeir góðu menn eru miklu færri og fá engu ráðið.“

Lýsingar Laxness í Íslandsklukkunni virðast því ekki fjarri lagi. Hitt er undrunar- og fagnaðarefni, að þrátt fyrir allt voru til menn, sem trúðu á Ísland, til dæmis Hannes Finnsson biskup, sem samdi í lok ájándu aldar sérstakt rit til stuðnings því, að landið væri byggilegt.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 18. febrúar og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010. Hún er enn til í bókabúðum og hentar vel til tækifærisgjafa.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband