21.2.2012 | 22:49
Hlegið að sjálfum sér
Rómverski heimspekingurinn Seneca yngri, ráðgjafi og kennari Nerós keisara, skrifaði: Sá sem hlær að sjálfum sér, verður ekki aðhlátursefni. Það er rétt, að menn koma stundum í veg fyrir, að aðrir geri gys að þeim, með því að verða fyrri til.
Hinn þjóðkunni gamanleikari Haraldur Á. Sigurðsson, sem uppi var 1901-1984, var til dæmis mjög gildvaxinn. Eitt sinn sagði einn vinur hans: Já, Guð hefur gefið þér góða sál, Haraldur minn. Haraldur svaraði hlæjandi: Já, og ekki hefur hann skorið umbúðirnar við neglur sér, blessaður.
Þegar menn reyndu að skopast að Haraldi, var hann fljótur til svars. Það verður ekki létt verk að bera þig til grafar, þegar þar að kemur, mælti kunningi hans. Þeir, sem guðirnir elska, deyja þungir, sagði þá Haraldur kankvíslega.
Ef menn urðu meinlegri, þá galt Haraldur líku líkt. Maður einn sagði háðslega við hann: Alltaf dettur mér svín í hug, þegar ég sé þig! Haraldur svaraði vingjarnlega: Það er auðvitað eðlilegt, vinur minn. Hugsa þú heim! Það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera ættrækinn.
Í annað sinn mætti maður honum í Austurstræti, og var þar þröng mikil, enda var þetta fyrir daga almennrar bílaeignar landsmanna. Vegfarandinn lagði af einhverjum ástæðum fæð á Harald og hreytti út úr sér: Ég vík ekki fyrir svínum! Haraldur lét sér hvergi bregða, heldur vék til hliðar með þessum orðum: En það geri ég.
Fleiri tilsvör Haraldar urðu fleyg, þótt þau snerust ekki um holdafar hans. Tónskáldið Jón Leifs sagði til dæmis einu sinni reiðilega við hann: Er það satt, Haraldur, að þú sért að bera það út um allan bæ, að ég sé ekki normal? Haraldur svaraði: Mikil andskotans ósannindi eru þetta, maður, ég, sem er ekki einu sinni viss um það sjálfur.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2012 og er sóttur á ýmsa staði í bók minni, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook