Jöklar og hvalir: Nýjar rannsóknir

Í janúar 2012 birtust tvær greinar í Nature, sem varpa nýju ljósi á tvö umræðuefni í umhverfismálum, bráðnun jökla í Himalajafjöllum og verndun hvala á höfum úti.

Greinin um jöklana var eftir Dirk Scherler, Bodo Bookhagen og Manfred Strecker. Þeir minntu á, að loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, þurfti að endurskoða þá spá sína í skýrslu frá 2007, að líklega yrðu allir jöklar í Himalajafjöllum bráðnaðir árið 2035. Átti spáin sér engar vísindalegar forsendur, þótt henni væri óspart haldið á lofti í æsifréttum af hlýnun jarðar. Eftir að þeir Scherler höfðu skoðað gögn um jöklana í Himalajafjöllum, sem aflað var úr gervitunglum, var niðurstaða þeirra, að jöklarnir væru ekki að hopa eins hratt og margir teldu. Þótt sumir hopuðu vissulega, stækkuðu aðrir. Viðbrögðin við loftslagsbreytingum væru ekki á einn veg.

Greinin um verndun hvala á höfum úti var eftir Christopher Costello, Steven Gaines og Leah R. Gerber. Þeir lögðu til, að tekið yrði upp kerfi framseljanlegra aflakvóta í hvalveiðum, eins og Íslendingar hafa haft í þorskveiðum. Þannig gæti frjáls markaður tryggt verndun og skynsamlega nýtingu hvalastofna. Ég gerði svipaða tillögu (en í annarri útfærslu) í fyrirlestri, sem ég flutti á fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands fyrir tæpu ári, 8. apríl 2011. Um þessar mundir er ég að vinna að frekari greiningu á þessari hugmynd, en hún á erindi til fleiri en Íslendinga. Hvalir á Íslandsmiðum éta árlega um sex milljónir lesta af fæðu, fiski, svifi og annarri ætu í hafi, á meðan við Íslendingar löndum á sama tíma aðeins eitthvað á aðra milljón lesta af fiski. Hvalkjöt er hollt og næringarríkt í heimi, þar sem fólki á eftir að fjölga enn, en jarðarbúar eru nú um sjö milljarðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband