18.2.2012 | 09:32
Ræða Þorsteins Más á Viðskiptaþingi
Þorsteinn Már Baldvinsson útgerðarmaður flutti fróðlega ræðu á Viðskiptaþingi 15. febrúar 2012. Hann benti þar á, að farsælast væri, þegar stjórnvöld og atvinnulíf ynnu saman að því að auka verðmætasköpun öllum í hag. Nefndi hann sérstaklega, hversu boðnir og búnir norskir jafnaðarmenn væru til að aðstoða útgerðarmenn þar í landi, þegar á þyrfti að halda, til dæmis við sölu afurða.
Því miður hafa núverandi stjórnvöld á Íslandi (sem eðlilegast væri að kalla Dýrafjarðarstjórnina eftir þeirri kenningu forsætisráðherrans, að Jón Sigurðsson hefði fæðst í Dýrafirði) rekið herferð gegn atvinnulífinu og þá sérstaklega sjávarútvegi.
Helsti glæpur sjávarútvegsins hefur verið talinn, að hann er arðsamur. En er það eitthvað til að hafa áhyggjur af? Væri hitt ekki verra, væri hann rekinn með tapi og ríkisstyrkjum eins og sjávarútvegur víðast hvar annars staðar í heiminum? Sjávarútvegur þarf eins og aðrir atvinnuvegir traust og stöðugt rekstrarumhverfi. Þess í stað hafa núverandi stjórnvöld myndað óvissu, þrengt að atvinnugreininni og komið þar í veg fyrir eðlilegar langtímafjárfestingar.
Orðið gjafakvóti er eitt orðið, sem lýðskrumarar nota um sjávarútveg. Sannleikurinn er sá, að nær allir kvótar, sem nú eru í höndum útgerðarmanna, hafa verið keyptir á eðlilegu markaðsverði. Þeir eru keyptir kvótar, ekki gjafakvótar. Og þeir voru keyptir í þeirri trú, að rekstrarumhverfi sjávarútvegsins væri traust.
Sannleikurinn er sá, að Íslendingar eru ein fárra þjóða, sem tekist hefur að stjórna fiskveiðum sínum skynsamlega. Það er vegna þess, að í kerfi varanlegra, seljanlegra aflakvóta geta útgerðarmenn einbeitt sér að því að lækka tilkostnað við veiðarnar til langs tíma, en þurfa ekki að eyða kröftunum í að veiða sem mest á sem skemmstum tíma, áður en einhver annar hirðir það. Jafnframt flytjast kvótar í frjálsum viðskiptum til þeirra, sem best geta nýtt þá.
Sjálfur er Þorsteinn Már dæmi um mann, sem skapar verðmæti með hagsýni sinni, útsjónarsemi og dugnaði. Við þurfum fleiri slíka menn, ekki færri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook