Er hlutleysi til eftirbreytni?

Stundum er vitnað í Brennu-Njáls sögu: „Þeir einir munu vera, að eg hirði aldrei þó að drepist.“ Ég er ekki viss um, að allir þeir, sem nota þessa tilvitnun, geri sér grein fyrir, að orðin mælti Mörður Valgarðsson, er hann var hvattur til að stöðva bardaga þeirra Gunnars á Hlíðarenda og Otkels Skarfssonar, en Otkell var illmenni.

Ekki eru allir heldur sammála um, að hlutleysi Marðar sé til eftirbreytni. Edmund Burke sagði: „Þá er illmenni bindast samtökum, verða góðir menn að standa sameinaðir, ella munu þeir falla hver af öðrum, — ósyrgð fórnarlömb smánarlegra átaka.“

Þýska skáldið August von Binzer orti:

Wer die Wahrheit kennt und spricht sich nicht,

Der bleibt fürwahr ein erbärmlicher Wicht.

Þetta má orða svo á lausu máli: „Sá, sem veit sannleikann og segir hann ekki, verður sannarlega brjóstumkennanlegur ræfill.“ 

Franski rithöfundurinn Charles Péguy skrifaði 1899: „Sá, sem veit sannleikann og þylur hann ekki hástöfum, gerist meðsekur lygurum og svikurum.“

Þýska skáldið Friedrich Wolf sagði í leikriti 1935: „Því að verri glæpur er ekki til en sá að vilja ekki berjast, þar sem berjast þarf.“

Stephan G. Stephansson orti 1923:

Æ, gef oss þrek, ef verja varð,

að vernda æ inn lægri garð

og styrk til þess að standa ei hjá,

ef stórsannindum níðst er á.

Best er sennilega komið orðum að þessari hugsun í kvæði Tómasar Guðmundssonar, „Heimsókn“:

Því meðan til er böl, sem bætt þú gast,

og barist var, á meðan hjá þú sast,

er ólán heimsins einnig þér að kenna.

 

(Eftirfarandi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2012 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband