13.2.2012 | 17:28
Ármann Þorvaldsson gestur í námskeiði mínu
Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander, var fimmtudaginn 9. febrúar 2012 gestur í námskeiði mínu í stjórnmálahagfræði í Háskóla Íslands, þar sem farið er meðal annars yfir orsakir og afleiðingar falls bankanna haustið 2008. Hann skrifaði hina skemmtilegu bók Ævintýraeyjuna um reynslu sína af hruninu.
Ármann taldi eina leikreglu á íslenska fjármálamarkaðnum hafa verið hæpna, en hún hefði ekki gilt erlendis, svo að hann vissi til. Hún væri, að bankar gætu lánað út á eigin hlutabréf (eða út á einhvern þann gerning, sem jafngilti því). Þannig virtist eigið fé bankanna vera meira en það var í raun og veru, svo að þeir tóku meiri áhættu en skynsamlegt var. Ég spyr eftir að hafa hlustað á Ármann: Væri ekki nær að leiðrétta þessa reglu nú en efna til stjórnlagaþings og annarra aðgerða, sem komu hruninu ekki hætis hót við?
Ármann vakti einnig athygli á, að markaðsmisnotkun fer venjulega fram svo, að beitt er brellum til að hækka í verði hlutabréf, sem brotamennirnir vilja selja, svo að þeir græði á sölunni, eða til að lækka í verði þau, sem þeir vilja kaupa. En í dæmi íslensku bankanna fyrir hrun var reynt að koma í veg fyrir, að hlutabréfin hröpuðu í verði, sem hefði þær hugsanlegu afleiðingar, að kerfið hryndi. Tilgangurinn var því ekki að skapa með brellum gróða, heldur að afstýra tapi og halda kerfinu gangandi. Á þessu tvennu er verulegur siðferðilegur munur, hvort sem sanna tekst lögbrot á einhverja bankamenn eða ekki í einstökum dæmum.
Um kvöldið var ég framsögumaður á fundi Heimdallar um lýðræði ásamt kosningasérfræðingnum Birni S. Stefánssyni, sem rannsakað hefur raðval og sjóðval, og tveimur fulltrúum lýðræðisfélagsins Öldu. Fólkið frá Öldu var kurteist og málefnalegt, en ekki þótti mér það hafa mjög raunhæfar hugmyndir um lýðræði.
Betra er að telja nef en höggva hálsa, svo að lýðræði er skársta fyrirkomulagið til að skipta um stjórnvöld, þegar þau verða óþolandi. En eigum við að gera okkur einhverjar frekari vonir um það? Er frelsi einstaklinganna til að velja ekki aðalleiðarstjarna okkar?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook