Manndómsvígsla Ögmundar

Eftir að Ögmundur Jónasson hljóp út undan sér á dögunum með því að vilja fylgja samvisku sinni einni í landsdómsmálinu, þurfti vitaskuld að taka hann aftur inn í ættbálkinn. Til þess hlaut hann að gangast undir þá manndómsvígslu, sem er einna algengust í röðum Vinstri grænna. Hún er að ráðast á skrif Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, en taka fram um leið, að þau séu látin ólesin.

Í frétt af fundi Vinstri grænna á dögunum skýrði DV frá því, að Ögmundur hefði þar varað menn við að fylgja fordæmi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og vísa öðrum út í ystu myrkur vegna ágreinings um eitthvert eitt atriði. Sjálfur hefði hann ekki viljað kaupa bók hans, Íslenska kommúnista 1918–1998, en blaðað í henni í bókabúð og þá séð, að menn væru umsvifalaust taldir kommúnistar, væru þeir ekki sammála höfundi í einu og öllu.

Því miður er ekki nóg að fella dóm um bók eftir að hafa aðeins blaðað í henni. Ég ræddi sérstaklega í eftirmála bókar minnar, hverjir gætu talist kommúnistar á Íslandi og hvers vegna. Þeir, sem vísuðu því ekki á bug að ná völdum sjálfir með ofbeldi og studdu einræðisstjórnir kommúnista annars staðar heils hugar, teljast kommúnistar í mínum huga. Hygg ég, að sú merking orðsins sé almenn og óumdeild.

Samkvæmt því voru allir félagar í kommúnistaflokknum 1930–1938 kommúnistar. Málið flæktist nokkuð, eftir að kommúnistaflokkurinn var lagður niður 1938. Sósíalistaflokkurinn var í reynd kommúnistaflokkur, því að gamli kommúnistakjarninn hafði þar tögl og hagldir, þótt margir óbreyttir fylgismenn flokksins teldu sig vissulega ekki kommúnista. Alþýðubandalagið 1968–1998 var hins vegar ekki kommúnistaflokkur, þótt ýmsir þar hefðu samúð með einræðisstjórnum kommúnista, síður þó í Ráðstjórnarríkjunum en í Rúmeníu og á Kúbu.

Í frásögn DV af fundi Vinstri grænna kom fram, að áheyrendur hefðu gert góðan róm að þeirri fullyrðingu Ögmundar, að hann hefði ekki viljað kaupa bók mína. Kvöddu ýmsir sér hljóðs til að vera ekki minni menn en Ögmundur og hældu sér af því að kaupa hvorki né lesa Morgunblaðið.

Sagan endurtekur sig. Ég segi frá því í bók minni, þegar Benjamín Eiríksson skrifaði fyrstu greinar sínar 1939 um það, að Sósíalistaflokkurinn ætti að vinna að hagsmunum íslenskrar alþýðu í stað þess að fylgja í blindni utanríkisstefnu Kremlverja. Þá gekk kunnur kommúnisti, Jón Rafnsson, að honum á götu, hvessti á hann augun og hvæsti: „Skrifaðu! Við lesum það ekki!“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband