Fullkomnunarkenningin og líkþornið

Þegar heimspekingar eru spurðir, hver sé tilgangur lífsins, svara þeir flestir með skírskotun til fullkomnunarkenningar þeirra, sem gríski spekingurinn Aristóteles setti einna fyrstur fram. Menn eiga að fullkomna sjálfa sig, sækja á brattann, þroska hæfileika sína, ekki leita aðeins fullnægingar efnislegra þarfa.

Þeir vitna iðulega í John Stuart Mill, sem skrifaði í Nytjastefnunni (1861): „Betra er að vera vansæll maður en sælt svín, og betra er að vera óánægður Sókrates en ánægður heimskingi.“

Sigurður Nordal, prófessor í norrænum fræðum, talaði í svipuðum anda í frægum fyrirlestrum um einlyndi og marglyndi, sem hann flutti í Reykjavík veturinn 1918-1919. „Hamingjan er oft ekkert annað en merki þess, að vér séum að vaxa, og vér tökum sársauka, sem þroskar, fram yfir gleði, sem ekkert skilur eftir.“ Enn sagði Sigurður: „Persónulegur þroski er fyrsta og sjálfsagðasta skylda hvers einstaklings. Tilveran stefnir öll í þessa átt, en þar sem þroskinn er jurtum og dýrum ósjálfráður, er hann manninum sjálfráður að miklu leyti, og því sjálfráðari sem um hærri tegundir hans er að ræða.“

Páll Skúlason prófessor fylgdi sömu leiðarstjörnu á ráðstefnu Bandalags háskólamanna um menntun í októberlok 1977: „Með þroska á ég einfaldlega við vöxt eða fullkomnun þeirra eiginleika, sem eru mönnum eðlislægir. Að menntast er þá að verða meira maður — ekki meiri maður — í þeim skilningi, að þær gáfur eða eiginleikar, sem gera manninn mennskan, fái notið sín, vaxi og dafni eðlilega.“

Sjálfur er ég sammála þessum ágætu spekingum. Vel er mælt. En vandinn er jafnan að vita, hvað maðurinn á að rækta í eigin eðli, hvaða eiginleika honum ber að þroska betur með sér. Á þetta benti danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard á gamansaman hátt í bókinni Enten-Eller (1843): „Það að vera fullkomin manneskja er æðra en allt annað. Nú er ég kominn með líkþorn, það er þó alltaf í áttina.“

(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku og birtist í Morgunblaðinu 24. desember 2011.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband