22.12.2011 | 15:23
Nokkrar bækur sem ég mæli með
Margar góðar bækur koma út fyrir þessi jól, og það er í rauninni ósanngjarnt að setja aðeins nokkrar þeirra á lista. Ég ætla þó að leyfa mér að mæla hér með nokkrum bókum, sem ég þekki vel, í pakkann undir jólatréð:
Fyrst nefni ég auðvitað eigin bók, Íslenska kommúnista 19181998. Hún hentar vel til að gefa öllum áhugamönnum um stjórnmál og sögu, en líklega eru bókhneigðir, hægri sinnaðir karlar yfir fimmtugt þakklátasti viðtakendahópurinn. Mér er sagt, að hún sé á þrotum hjá útgefanda, en hún er enn til í bókabúðum.
Næst get ég bókar Sigurðar Más Jónssonar blaðamanns, Icesave-samningarnir. Afleikur aldarinnar? Þetta rit bregður skæru ljósi á muninn á samningatækni Svavars Gestssonar annars vegar og Lee Buchheits og íslenskra aðstoðarmanna hans hins vegar. Líklega hentar það vel í gjafir til sömu hópa og bók mín.
Þá er skáldsagan Uppsprettan (The Fountainhead) eftir Ayn Rand tilvalin jólagjöf. Þetta er vel skrifuð ástarsaga, en með alvarlegu ívafi. Sögur rússnesk-bandarísku skáldkonunnar Rands eru magnaðar, enda hafa þær selst samtals í um þrjátíu milljónum eintaka um heim allan. Þær má gefa hverjum sem er, ungum stúlkum, gömlum körlum, konum á miðjum aldri, háskólanemum og iðnverkamönnum.
Þess má geta, að Almenna bókafélagið hefur boðað, að það muni gefa út aðra skáldsögu Rands á næsta ári, Undirstöðuna (Atlas Shrugged), og síðan árið 2013 þriðju söguna, Kíru Argúnovu (We the Living). Ég spái því, að þessar þrjár bækur hrífi margan æskumanninn hér á landi eins og þær hafa gert víðast erlendis.
Enn má nefna bókina Engan þarf að öfunda eftir bandarísku blaðakonuna Barböru Remnick. Þegar sagt er, að bókin sé um daglegt líf í Norður-Kóreu, halda margir eflaust, að hún sé daufleg aflestrar. Svo er alls ekki. Hún hefur raunar þau einkenni góðrar skáldsögu, að lesendur fá áhuga á söguhetjunum og vilja vita, hvað um þær verður. Gefa má sama víða lesendahópnum hana og Uppsprettuna eftir Rand.
Önnur bók, sem kom út síðast liðið vor, er Rosabaugur yfir Íslandi eftir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Þetta er gagnlegt yfirlit yfir Baugsmálið svonefnda, en þá reyndu Baugsfeðgar með stórkostlegum fjárútgjöldum að móta almenningsálitið sér í hag í því skyni að sleppa við afleiðingar eigin gerða.
Roðinn í austri eftir Snorra G. Bergsson sagnfræðing er stórfróðleg bók um frumdaga kommúnistahreyfingarinnar, 19181924. Snorri hefur verið óþreytandi að grafa upp fróðleiksmola í skjalasöfnum, og tekst honum að hrekja margar goðsagnir um efni sitt. Bókin er auk þess hin læsilegasta. Líklega hefur sami lesendahópur gaman af henni og minni bók.
Þá skal geta bókar Óla Björns Kárasonar blaðamanns, Síðustu varnarinnar. Þá fer Óli Björn yfir einn þátt Baugsmálsins: Hvernig dómarar létu Baugsfeðga hafa áhrif á sig og felldu dóma, sem auðvelduðu fjárglæframönnum leikinn. Er sú saga öll hin merkilegasta.
Rit úr allt annarri átt er Einfaldara sushi eftir Steven Pallet. Sjálfum finnst mér sushi afar bragðgott, og við eigum besta hráefni í heimi til þess að gera þann rétt, enda hefur neysla á sushi stóraukist hér síðustu árin. Bók sem þessa hefur bráðvantað, og mun hún vera á góðri leið með að seljast upp.
Önnur bók, sem mér líst vel á, er Heilsudrykkir eftir Auði Ingibjörgu Konráðsdóttur, sem rekur vefsíðuna heilsukokkurinn.is. Þar birtir höfundur uppskriftir að einföldum og hollum drykkjum, sem eru um leið bragðgóðir. Það er ekki rétt, sem gárungarnir segja, að allt, sem sé gott, sé annaðhvort ólöglegt, ósiðlegt eða fitandi!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:06 | Facebook