21.12.2011 | 01:13
Íslendingar í Norður-Kóreu
Norður-Kórea er eitt af tveimur raunverulegum kommúnistaríkjum, sem eftir eru í heiminum. Hitt er Kúba. Árás Norður-Kóreu undir stjórn Kim Il-sung á Suður-Kóreu sumarið 1950, sem gerð var með samþykki Stalíns og Maós, hleypti af stað hinu blóðuga Kóreustríði. Íslenskir sósíalistar studdu Norður-Kóreu í stríðinu, eins og ég rek í bók minni, Íslenskum kommúnistum 19181998.
Þar segi ég líka frá fyrsta íslenska pílagrímnum úr röðum sósíalista, sem fór til Norður-Kóreu. Sá var Birna Þórðardóttir, sem var fulltrúi Æskulýðsfylkingarinnar þar á æskulýðsmóti sumarið 1971. Birna hitti Kim Il-sung tvisvar að máli í þeirri ferð. Taldi hún dýrkunina á honum eðlilega: Kóreumenn litu á hann sem fyrirmynd svipað og Íslendingar á Jón Sigurðsson.
Einnig segi ég frá sex manna hópi frá Íslandi, sem sótti heimsmót æskunnar í Norður-Kóreu sumarið 1989. Þar á meðal voru Jóhanna Eyfjörð bankamær og Sveinþór Þórarinsson skrifstofumaður, sem bæði voru virk í Alþýðubandalaginu, og þeir Jóhann Björnsson heimspekingur og Guðmundur Auðunsson stjórnmálafræðingur, sem starfa nú í Vinstri-grænum. Í viðtali við Þjóðviljann fóru Jóhanna og Sveinþór lofsamlegum orðum um aðstæður í Norður-Kóreu.
En íslenska sendinefndin 1989 hefur líklega ekki aðeins sagt Íslendingum ósatt um Norður-Kóreu, heldur líka Norður-Kóreumönnum ósatt um Ísland. Á meðan bók mín var í prentun í október 2011, voru nokkrir Íslendingar staddir í Kína. Datt þeim í hug að skreppa yfir til Norður-Kóreu. Þar fylgdu þeim jafnan tveir leiðsögumenn, sem hafa eflaust átt að gæta hvor annars ekki síður en greiða fyrir ferðafólki.
Ein ferðin var í safn um Kim Il-sung, föður Kim Jong-il, sem dó á dögunum, og afa Kim Jong-un, sem nú tekur við valdataumum í Norður-Kóreu. Í einu herberginu voru sýnd heiðursmerki, sem Kim Il-sung hafði hlotið frá ýmsum löndum. Sýningarstjórinn sagði hreykinn, að Kim Il-sung hefði fengið heiðursmerki frá flestum eða öllum löndum heims, þar á meðal jafnvel Íslandi. Tók hún fram heiðursmerkið og sýndi gestum.
Íslendingarnir áttu bágt með að leyna undrun sinni, þegar þeir sáu merkið. Þetta var minnispeningur um Kópavog - bæ barnanna frá 1985!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook