Kremlverjar veittu styrk 1952

Menn hafa hér á Netinu flýtt sér heldur að fylgja Jóni Ólafssyni á Bifröst eftir í tilraunum hans til að ráðast á bækur okkar Þórs Whiteheads um íslensku kommúnistahreyfinguna og gera okkur tortryggilega. Síðasta tilraunin snerist um missögn frá Jóni Ólafssyni, sem Árni Snævarr hafði eftir honum í bók frá 1992. Þessi missögn var, að styrkur, sem miðstjórn kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna samþykkti sérstaklega að veita Dagsbrún, hefði verið frá 1952, en svo var ekki. Hann var frá 1961.

Ég reyndi í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, að sannreyna langflestar upplýsingar, sem ég sótti til Jóns Ólafssonar, því að ég hafði vonda og margfalda reynslu af því, hversu ónákvæmur hann er í skrifum sínum. Í þetta skipti treysti ég þó heimildinni, því að hún birtist 1992 í riti Árna Snævarrs og Jón skrifaði bók um sama mál 1999 og leiðrétti ekki þessa villu þeirra Árna. Sök mín er sú ein að hafa í þetta skipti treyst upplýsingum frá Jóni Ólafssyni, dottað á verðinum. Ég gengst fúslega við þeirri sök, en játa, að mér líður örlítið eins og manninum á Ísafirði, sem stolið var frá, en var jafnan síðan kallaður „Óli þjófur“. Mér er skyndilega kennt um missögn Jóns Ólafssonar!

En þá er þess að geta, eins og fram kemur í bók minni (bls. 258–259), að Kremlverjar samþykktu vissulega að veita verkalýðsfélögum undir stjórn kommúnista styrk eftir hið harða verkfall árið 1952. Var það gert að ósk stalínistans Björns Bjarnasonar, og var svokallað Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, WFTU, skrifað fyrir styrknum, en það var undir stjórn Kremlverja. Sá styrkur virðist að vísu ekki hafa verið greiddur út, þótt ekki sé það með öllu víst. En aðalatriðið í því sambandi er, að 1952 töldu Kremlverjar ástæðu til að hafa afskipti af vinnudeilu eins og 1961.

Einnig er athyglisvert það, sem ég skýri frá í bók minni (og Árni Snævarr hafði áður bent á), að Eðvarð Sigurðsson, einn helsti forystumaður Dagsbrúnar, skrifaði í minnisbók sína, líklega 1952: „Ekki miklar upphæðir. Ekki sjóði eins og Comintern.“ Eðvarð sagði með öðrum orðum, að Komintern, Alþjóðasamband kommúnista, hefði veitt miklu rausnarlegri styrki til baráttu íslenskra stalínista í verkalýðsfélögunum en síðar hefði tíðkast. Ekkert hefur fundist um slíka styrki í þeim gögnum, sem íslenskir fræðimenn hafa haft aðgang að í Moskvu. Sýnir þetta það vel, sem ég hef sagt, að ekki eru öll kurl komin til grafar. Ýmis söfn í Moskvu eru enn lokuð, meðal annars safn leynilögreglunnar og safn alþjóðadeildar kommúnistaflokksins.

Rétt er síðan að benda á, að skýrt kemur fram í bók minni, að styrkurinn, sem Kremlverjar veittu Dagsbrún 1961, var opinber. Skrifað var um hann í blöðum á þeirri tíð, og Halldór Björnsson, sem var um skeið formaður Dagsbrúnar, minntist á hann í endurminningum sínum (eins og ég greini frá í bók minni). Varð styrkurinn uppistaðan í vinnudeilusjóði Dagsbrúnar, sem stalínistinn Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnaði. Hins vegar er forvitnilegt það, sem ég bendi á í bók minni, að látið var svo heita, að styrkurinn væri frá „sambandi byggingarverkamanna“ í Ráðstjórnarríkjunum, þegar sannleikurinn var sá, að miðstjórn kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna samþykkti styrkinn sérstaklega. Íslensku stalínistarnir sögðu með öðrum orðum ósatt um það 1961, frá hverjum styrkurinn var raunverulega.

Þegar eitthvað er missagt, skal hafa það, sem sannara reynist, og mér er ljúft og skylt að leiðrétta nú missögn Jóns Ólafssonar og Árna Snævarrs um styrkinn til Dagsbrúnar frá miðstjórn kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Hún breytir hins vegar engu um það, að 1952 jafnt og 1961 fylgdust Kremlverjar vel með verkfallsátökum á Íslandi og voru reiðubúnir að rétta íslenskum stalínistum hjálparhönd. Jóni Ólafssyni tekst ekki með síðustu tilraunum sínum að hagga niðurstöðum í bók minni eða fegra hlut stalínistanna íslensku. Og þeim, sem skrifa um bók mína á Netinu, ráðlegg ég í fullri vinsemd að lesa hana, áður en þeir láta í ljós skoðanir á henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband