19.12.2011 | 14:46
Kjartan Ólafsson og Jón Ólafsson: Svör mín
Ég birti laugardaginn 17. desember svar í Morgunblaðinu við grein Kjartans Ólafssonar viku áður í blaðinu, sem samin var í tilefni bókar minnar um Íslenska kommúnista 19181998. Þar taldi Kjartan, að Einar Olgeirsson hefði haft rangt fyrir sér um afstöðu nokkurra þingmanna Alþýðubandalagsins til Ráðstjórnarríkjanna. Ég benti á, að ágreiningurinn um það mál væri milli Kjartans og Einars, ekki milli Kjartans og mín.
Hið sama er að segja um athugasemd, sem Jón Ólafsson birti á bloggi sínu sunnudaginn 18. desember. Ég tók það upp úr riti um kommúnistahreyfinguna eftir Árna Snævarr, sem ég vísaði vandlega í (en hann hafði vísað í gögn Jóns Ólafssonar, svo að ég nefndi þau vitanlega líka), að kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna hefði veitt Dagsbrún háan styrk 1952. Jón segir, að þessi styrkur hafi verið veittur 1961. Rangt ártal var að sögn Jóns í riti Árna (eða Jón Ólafsson hefur látið Árna fá rangar upplýsingar á sínum tíma, því að þessi fróðleikur Árna var upphaflega frá Jóni).
Ef Jón hefur nú rétt fyrir sér, sem ég sé enga ástæðu til að efast um, þá er við hann sjálfan eða Árna að sakast frekar en mig. En vitanlega er skylt að hafa það, sem sannara reynist.
Hinu má þó ekki horfa fram hjá, sem ég ræði um í bók minni, að Kremlverjar skyldu veita Dagsbrún háan styrk í vinnudeilu 1961, þótt svo væri látið heita, að samband byggingarverkamanna í Ráðstjórnarríkjunum veitti styrkinn. Sýnir það, að Kremlverjar létu sig svo sannarlega skipta, hvað gerðist hér á landi á sjötta áratug.
Grein Kjartans Ólafssonar í Morgunblaðinu var kurteisleg og málefnaleg. En blogg Jóns Ólafssonar var því miður fullt af stóryrðum og dylgjum. Eflaust sárnar honum, hversu margar villur ég hef þurft að leiðrétta í skrifum hans um kommúnistahreyfinguna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook