Seinheppni og óskhyggja

Orðið „seinheppni“ hefur aðra merkingu í íslensku en orðin „afglöp“ eða „fávísi“. Það er notað um mistök, sem verða vandræðaleg fyrir rás viðburða, þótt stundum komi óskhyggja við sögu.

Gunnar Knudsen, þá forsætisráðherra Noregs, sagði til dæmis í stórþinginu 17. febrúar 1914: „Núna horfir svo við að á himni alþjóðastjórnmálanna er hvergi ský að sjá miðað við það, sem verið hefur í mörg ár.“ Nokkrum mánuðum síðar logaði álfan.

Ekki þótti heldur spámannlega mælt er Jón Trausti skrifaði um jafnaðarstefnu að Þorsteini Erlingssyni látnum í Skírni 1915: „Nú er fremur að dofna yfir henni úti um heiminn og forkólfar hennar farnir að fara sér hægar. Hvernig sem menn líta á hana verður því ekki neitað að hún hefir haft geysiáhrif, einnig á kirkjuna, og mörgu hrundið til verulegra bóta. Hér á landi hefir henni líklega að mestu lokið með Þorsteini.“

Seinheppni stafar stundum af því að menn eru of vissir í sinni sök. Til dæmis birti bandaríska stórblaðið Chicago Daily Tribune risafyrirsögn á forsíðu 3. nóvember 1948: „Dewey sigrar Truman.“ Skoðanakannanir höfðu bent til sigurs Tómasar Deweys ríkisstjóra í forsetakjöri í Bandaríkjunum og blaðið studdi hann eindregið en Truman sigraði.

Sama ár skrifaði kanadísk-bandaríski hagfræðingurinn John Kenneth Galbraith um viðskiptahöft í Vestur-Þýskalandi: „Það hefur aldrei verið minnsti möguleiki á endurreisn í Þýskalandi með afnámi þeirra.“ Ludwig Erhard, þá viðskiptaráðherra, afnam höftin um þær mundir og í hönd fór „þýska efnahagsundrið“.

Og Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor sagði í Lesbók Morgunblaðsins 23. nóvember 1996: „Taílendingar hafa á skömmum tíma náð aðdáunarverðum árangri af eigin rammleik og heilbrigðu hyggjuviti. Sjálf berum við Íslendingar með sama hætti einir ábyrgð á því, hversu kjörum okkar hefur hrakað síðustu ár miðað við margar aðrar þjóðir nær og fjær.“ Þorvaldur hafði varla sleppt orðinu, þegar stórkostleg kreppa skall á í Taílandi, og dróst hagkerfið saman um 10,2% árið 1997. Hagvöxtur (án teljandi skuldasöfnunar) reyndist hins vegar ör næstu átta ár á Íslandi.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband