11.12.2011 | 22:59
Fleiri góðir dómar
Ég þarf ekki að kvarta undan viðtökum bókar minnar, Íslenskra kommúnista 19181998. Ég hef þegar sagt frá lofsamlegum ritdómum Styrmis Gunnarssonar ritstjóra, Eiríks Jónssonar blaðamanns og Jóns Sigurðssonar, sagnfræðings og fyrrverandi ráðherra.
Einnig töluðu þau Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson vel um bókina í Kiljunni í Sjónvarpinu, þótt auðvitað hefðu þau bæði ýmislegt við hana að athuga.
Jón Þ. Þór sagnfræðingur skrifaði umsögn í DV helgina 4.5. desember. Þar sagði hann meðal annars:
Niðurstaða mín er sú að þessi bók er einkar fróðleg og að henni góður fengur. Höfundur dregur fram margt sem fáir vissu um áður, varpar nýju ljósi á annað og setur söguna þannig fram að gott samhengi er í frásögninni. Bókin er einnig skemmtileg aflestrar og ríkulegt myndefni og góðir myndatextar auka enn á gildi hennar.
Illugi Jökulsson rithöfundur, sem tók á sínum tíma saman bók um helstu atburði 20. aldar, sagði um bókina á bloggi sínu:
Að mörgu leyti er hún alveg prýðileg, hún rekur söguna á greinargóðan og skilmerkilegan hátt og Hannes hefur víða leitað fanga. Sjálfsagt verða fræðimenn ekki endilega sammála um túlkun höfundar á því hversu skeinuhættir kommúnistar voru íslensku samfélagi, en það er þá bara umræða sem fer fram í rólegheitum. Og það er fullt af skemmtilegum myndum í bókinni, einkum frá fyrstu áratugum 20. aldar. Og ég skil ekki þá gagnrýni að Hannes megi ekki skrifa um kommúnismann þó hann hafi hamast gegn honum alla sína tíð.
Valgarður Guðjónsson, tónlistarmaður og tölvusérfræðingur, skrifaði á bloggi sínu um íslenska kommúnista eftir að hafa lesið bókina:
Jafnvel greindasta fólk virðist hafa lokað báðum augum. Ég vissi að Halldór Laxness hafði haft samúð með kommúnistum en það kemur óneitanlega á óvart að sjá hversu virkur hann var í starfinu. En hann sá auðvitað síðar hvers kyns var. Að sjá að greinar í íslenskum blöðum þar sem verið er að verja aftökur á fólki fyrir skoðanir er líka eitthvað sem er fullkomlega óskiljanlegt. Ekki spillir að bókin er skemmtileg og lipurlega skrifuð stundum eru upptalningar full nákvæmar fyrir minn smekk en það tilheyrir sennilega sagnfræðinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:03 | Facebook