Háskólinn: Björtu hliðarnar

Ótrúlegt var að lesa fréttaskýringu Morgunblaðsins um vinnubrögð Þorsteins Vilhjálmssonar, fyrrverandi prófessors, og félaga hans í siðanefnd Háskóla Íslands. En menn mega ekki fordæma allan skóginn, þótt þeir finni þar eitt fölnað laufblað, eins og Steingrímur skáld Thorsteinsson benti okkur á í fleygri vísu.

Í Háskóla Íslands er fjöldinn allur af vandvirkum, snjöllum, hógværum fræðimönnum, sem stunda merkilegar rannsóknir, vinna gott starf og eru stofnuninni til sóma. Ég nefni hér aðeins fimm:

Dr. Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði. Yfirlitsrit hans um stofnanahagfræði er kennt í háskólum um allan heim. Þegar ég sæki ráðstefnur erlendis, er fyrsta spurningin iðulega: „Hvað er að frétta af Þráni Eggertssyni?“ Þráinn sýndi í skarplegri greiningu á hinni fornu ítölu (beitarréttindum einstakra jarða, eins konar kvóta), hvernig nota má hagfræðina til að varpa ljósi á Íslandssöguna.

Dr. Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði. Ragnar er einn virtasti sérfræðingur heims á sviði auðlindahagfræði. Hann hefur sinnt ráðgjöf í mörgum löndum, meðal annars fyrir Alþjóðabankann, og birt tímamótaritgerðir um fiskveiðistjórnun. Raunar hefur Ragnar eins og Þráinn beitt hagfræðinni til að skýra Íslandssöguna. Hann birti eitt sinn skemmtilega ritgerð ásamt konu sinni, dr. Önnu Agnarsdóttur sagnfræðiprófessor, um það, hvers vegna þrælahald hefði lagst hér niður á þjóðveldisöld. (Skýringin var í anda Adams Smiths: Það borgaði sig ekki.)

Dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði. Hann á sér sem kunnugt er fjölmennan og dyggan lesendahóp, enda eru bækur hans vel skrifaðar og vandaðar og efnið undantekningarlaust forvitnilegt. Þór hefur fetað í fótspor Sigurðar Nordals á öndverðri tuttugustu öld og gert sér far um að miðla þekkingu sinni til almennings, án þess að hann hafi þó í neinu slakað á fræðilegum kröfum. Hann býður ekki upp á dauða heilafylli, heldur lifandi skilning.

Dr. Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum. Ég skal játa, að ég þekki ekki sérsvið Einars nema af afspurn, en veit, að hann er virtur á alþjóðavettvangi og margverðlaunaður fyrir vísindaleg afrek sín. Jafnframt hafa rannsóknir hans mikið hagnýtt gildi. Einar er líka einn af hinum góðgjörnu og víðsýnu mönnum, sem minna fer fyrir en efni standa til í Háskóla Íslands.

Dr. Hafliði Pétur Gíslason, prófessor í eðlisfræði. Hafliði nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar á eðlisfræði hálfleiðara, en sú grein vísindanna er í senn fræðilega forvitnileg og getur verið mjög hagnýt. Hann á ásamt aðstoðarfólki sínu í Háskóla Íslands í samstarfi við fjölda vísindahópa í öðrum löndum, í Frakklandi, Kína og víðar.

Ásamt þessum fimm mönnum, sem ég hef hér nefnt, af því að ég þekki til þeirra, vinnur margt annað afburðafólk að kennslu og rannsóknum í Háskóla Íslands, leggur sig fram og má ekki vamm sitt vita. Við skulum horfa á björtu hliðarnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband