Furðulegar árásir á Þór Whitehead

Eftir hinn einkennilega fund Sagnfræðingafélagsins 23. nóvember, þar sem fjórir fræðimenn gagnrýndu bækur okkar Þórs Whiteheads, án þess að okkur væri boðið að svara, hefur einn framsögumannanna, Jón Ólafsson á Bifröst, veist harkalega á bloggi sínu að Þór Whitehead fyrir óvandaða heimildanotkun.

Þór Whitehead er fullfær um að svara fyrir sig, en ég get ekki orða bundist, þegar hann er sakaður um óvandaða heimildanotkun. Vandvirkari fræðimann hef ég ekki fyrirhitt, og geta nemendur hans í Háskóla Íslands einnig borið um það vitni. Þór hefur ekki aðeins lesið öll þau rit, sem varða rannsóknarefni hans, heldur hefur hann eytt áratugum í að þaulkanna skjalasöfn á Íslandi og í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og víðar, auk þess sem hann á stórt úrklippusafn úr blöðum og tímaritum, sem enn er gagnlegt þrátt fyrir rafræna og þó brigðula útgáfu slíkra verka. Einnig á hann stórmerkilegt safn viðtala við fjölda fólks, sem hann hefur tekið. Lesendur hans vita síðan, að hann leggur alúð við að miðla þessu mikla efni læsilega og lipurlega frá sér í afbragðsbókum, sem allar hafa selst vel.

Ég skal hér nefna þrjár villur, sem Þór Whitehead hefði aldrei gert vegna yfirburðaþekkingar sinnar á skjalasöfnum og aðstæðum og umhverfi íslensku kommúnistanna. Til er skjal frá 1920 í Komintern-safninu, þar sem skrifað er undir „Sillinn“. Kemur þar fram, að bréfritari sé að mynda kommúnistahreyfingu á Íslandi. Jón Ólafsson dró í bók sinni, Kæru félögum, þá ályktun, að sænski kommúnistinn Hugo Sillén hefði skrifað bréfið. Hefði hann komið til Íslands 1920. En þetta er fráleitt af ýmsum ástæðum. Og allir þeir, sem hafa kannað bréf á milli íslensku  kommúnistanna, vita, að Hendrik Siemsen Ottósson gekk undir gælunafninu „Sillinn“. Brynjólfur Bjarnason var kallaður „Billinn“ og Ársæll Sigurðsson „Sælinn“. Þetta var bréf frá Hendrik Ottóssyni.

Annað dæmið er, að Einar Olgeirsson gekk á fund Georgís Dímítrovs, fyrrverandi forseta Kominterns og þá starfsmanns alþjóðadeildar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, í október 1945. Jón Ólafsson segir í bók sinni, að ekki sé ljóst af dagbókarfærslu Dímítrovs, hvað þeim hafi farið á milli. En eins og Þór Whitehead benti á í bók sinni, Sovét-Íslandi. Óskalandinu, er einmitt ljóst af þeirri færslu, hvað þeim fór á milli. Dímítrov færði inn í dagbók sína, að þeir hefðu rætt um herstöðvabeiðni Bandaríkjamanna (sem sett var fram í októberbyrjun) og innanflokksmál Sósíalistaflokksins íslenska.

Þriðja dæmið er, að fram kemur í gögnum kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, að hann hafi sumarið 1952 veitt Dagsbrún háan styrk, en félagið var þá undir stjórn einbeittra stalínista. Jón Ólafsson getur þess ekki í bók sinni, Kæru félögum, og hafði hann þó kannað gögnin, þar sem þetta kemur fram. Þessa styrkveitingu verður auðvitað að tengja því, að bandarískt varnarlið var nýkomið til Íslands og að Kóreustríðið geisaði enn. Kalda stríðið var í hámarki. Dagsbrún reyndi í hörðu verkfalli, sem gert var nokkrum mánuðum eftir að styrkurinn barst, að stöðva flutninga til og frá bandaríska varnarliðinu. Þessari mikilvægu staðreynd hefði Þór Whitehead ekki sleppt (eins og Jón Ólafsson gerði) úr bók, sem átti að vera um samskipti íslenskra sósíalista og ráðamanna í Moskvu.

Öllum getur yfirsést eitthvað í víðfeðmum fræðum, og öll gerum við auðvitað villur. En missagnir Jóns Ólafssonar eru allar í eina átt. Þær eru fólgnar í að gera lítið úr hinum nánu tengslum íslenskra kommúnista og sósíalista við stjórnina í Moskvu. Hann lætur ekki skipast við leiðréttingar, heldur herðir frekar á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband