29.11.2011 | 12:25
Athugasemd til Þorsteins frá Hamri
Í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918-1998, rek ég mörg dæmi þess, að íslenskir rithöfundar, sem samúð höfðu með sósíalisma, en leyfðu sér að gagnrýna Kremlverja, voru hrakyrtir og þeim útskúfað úr gömlum vinahópum. Má þar nefna Benjamín Eiríksson, Stein Steinarr, Jóhann Hjálmarsson og Arnór Hannibalsson. Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur treysti sér af þeim ástæðum ekki einu sinni til að taka að sér verkefni fyrir Almenna bókafélagið, eins og hann trúði framkvæmdastjóra félagsins, Baldvini Tryggvasyni, fyrir.
Sverrir hefur eflaust séð, hvernig fór fyrir skáldinu Jóni Óskari. Hann gaf 1964 út ferðabók hjá Almenna bókafélaginu, þar sem kvartað var lítillega undan því ófrelsi, sem rithöfundar ættu við að búa í Rússlandi. Svo vildi til, að sama ár fékk hann listamannalaun. Óðar hófust gegn Jóni Óskari skrif í dagblaði sósíalista, Þjóðviljanum, eins og ég rek í bók minni. Friðjón Stefánsson sagði til dæmis, að Jón Óskar hefði birt óhróður um Ráðstjórnarríkin. Og eins og við manninn mælt: Hann skal upp í 18 þúsund króna flokk." Þorsteinn frá Hamri birti í Þjóðviljanum háðkvæði, þar sem hann setti fram sömu tilgátu: Jón Óskar hefði fengið átján þúsund krónur fyrir sérlegt ferðastjá" sitt. Í endurminningum sínum sagði Jón Óskar, að Þjóðviljinn hefði eftir þetta skrifað gegn sér og sósíalistar hætt að heilsa sér á förnum vegi.
Þorsteinn frá Hamri skrifar nú 22. nóvember athugasemd til mín í Fréttablaðið, þar sem hann sagði háðkvæði sitt frá 1964 ekki hafa beinst að Jóni Óskari, heldur að úthlutunarnefnd listamannalauna, sem hefði fram að þessu sniðgengið Jón Óskar. Þetta er yfirklór. Kvæði Þorsteins var augljós ádeila á Jón Óskar. Ef Þorsteinn frá Hamri var ósammála úthlutunarnefndinni, en ekki Jóni Óskari, af hverju orti hann þá gegn henni, eftir að hún hafði veitt Jóni Óskari laun, en ekki á meðan hún neitaði honum um slík laun?
Og ef Þorsteinn frá Hamri tók undir gagnrýni Jóns Óskars á Ráðstjórnarríkin, hvers vegna þáði hann þá hálfs mánaðar boðsferð þangað haustið 1965, eins og ég skýri frá í bók minni?
(Grein í Fréttablaðinu 24. nóvember 2011.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook