25.11.2011 | 23:21
Fundur Sagnfræðingafélagsins gegn bókum okkar Þórs Whiteheads
Sagnfræðingafélagið og Reykjavíkurakademían héldu fund að kvöldi 23. nóvember 2011 undir yfirskriftinni: Íslensk vinstri róttækni: Hugsjónabarátta eða landráð?
Sjálf yfirskriftin var að vísu vanhugsuð, því að vitanlega geta menn verið hugsjónamenn um landráð. Til dæmis vildu kommúnistar, á meðan þeir voru upp á sitt besta, gera Ísland að ríki í Ráðstjórnarríkjunum, Sovét-Íslandi, eins og skoðanasystkini þeirra í Eistlandi, Lettlandi og Lithaugalandi gerðu með hjálp Rauða hersins árið 1940. Það var líka Otto Kuusinen hugsjónamál að gera Finnland að ríki í Ráðstjórnarríkjunum, þótt það tækist ekki.
Fundinn sóttu margir gamlir kommúnistar og sósíalistar og sátu þar eftirvæntingarfullir, til dæmis Árni Bergmann, Hjalti Kristgeirsson, Loftur Guttormsson, Þorsteinn Vilhjálmsson og Kjartan Ólafsson. Sagnfræðingafélagið valdi fjóra fræðimenn til að gagnrýna verk okkar Þórs Whiteheads, Sovét-Ísland. Óskalandið eftir Þór og Íslenska kommúnista 19181998 eftir mig, en bauð hvorugum okkar að svara. Ég ákvað þó að sækja fundinn og taka til máls, ef þess þyrfti með.
Framsöguerindin
Skafti Ingimarsson, sem skrifar nú doktorsritgerð um ólíka samsetningu kommúnistaflokksins og Sósíalistaflokksins, talaði fyrstur. Hann taldi, að sjónarhorn okkar Þórs á kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn væri of þröngt. Þessir flokkar hefðu aðallega stundað verkalýðs- og þjóðfrelsisbaráttu. Óbreyttir fylgismenn þeirra hefðu ekki stefnt að byltingu.
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðidoktor og höfundur bókarinnar Óvina ríkisins, tók síðan til máls. Hann svaraði ýmsum athugasemdum, sem Þór Whitehead hafði í Sovét-Ísland. Óskalandið gert við bók hans. Ekki voru þær þó stórvægilegar. Taldi Guðni Þór gera of mikið úr hættunni á kommúnistum á fjórða áratug. Lestur Guðna er aðgengilegur á heimasíðu hans.
Jón Ólafsson, rússneskumælandi heimspekidoktor og höfundur bókarinnar Kæru félaga, var þriðji framsögumaðurinn. Taldi hann Þór Whitehead túlka heimildir úr rússneskum skjalasöfnum djarflega. Aðrar túlkanir væru mögulegar, og sýndu heimildirnar meðal annars, að íslenskir kommúnistar og sósíalistar hefðu ekki alltaf verið sammála Komintern. Sagðist Jón ekki hafa kynnt sér bók mína að gagni, en sér sýndist í fljótu bragði, að hún væri sömu annmörkum háð og bók Þórs.
Ragnheiður Kristjánsdóttir, sem skrifað hefur doktorsritgerð um kommúnistaflokkinn, steig síðust í pontu. Hún kvaðst hafa mestan áhuga á þjóðernistali íslenskra kommúnista og sósíalista. Þeir hefðu beint sjónum sínum að þeim hópum, sem útundan hefðu orðið í sjálfstæðisbaráttu nítjándu aldar, fátækum verkalýð. Önnur sjónarhorn ættu hins vegar vitaskuld rétt á sér.
Ragnheiður bar af sem framsögumaður, því að hún reyndi af fremsta megni að vera heiðarleg. Hún sá og skildi önnur sjónarmið, þótt hún væri þeim ekki samþykk. (Er hún þó langtengdust gömlu kommúnistunum framsögumannanna, því að hún er stjúpdóttir Svavars Gestssonar.) Guðni, sem venjulega er sanngjarn, var of upptekinn af því að svara Þór Whitehead í deilum þeirra um ýmis smáatriði, aðallega um Drengsmálið og Gúttóslaginn (þar sem mér sýndist Þór þó hafa meira til síns máls).
Spurningar mínar
Ég kvaddi mér fyrstur hljóðs eftir framsöguerindin og spurði hvern ræðumanna einnar spurningar.
Skafta spurði ég: Ég hef aðeins fundið eitt dæmi þess, að Sósíalistaflokkurinn hefði vikið út af línu kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna á starfstíma sínum 1938 til 1968. Það var, að flokkurinn vildi ekki fordæma kommúnistaflokka Júgóslavíu og Albaníu, eins og Kremlverjar vildu. Kannt þú fleiri dæmi?
Guðna spurði ég: Í fundarboðinu hér er sagt, að kommúnistaflokkurinn íslenski hafi viljað byltingu með góðu eða illu. Hvað er bylting með góðu?
(Þá kallaði Guðmundur Jónsson prófessor fram í utan úr sal, að bylting með góðu væri, þegar hún heppnaðist. En ég svaraði á móti: Jafnvel þegar fjöldi manns er drepinn? Er það bylting með góðu? Þá þagði Guðmundur.)
Ragnheiði spurði ég: Þegar Einar Olgeirsson talaði við sendimenn Ráðstjórnarríkjanna í ársbyrjun 1947 og bað þá að gera ekki samninga við íslensk stjórnvöld um að kaupa fisk, hvort talaði Einar þá sem þjóðernissinni eða kommúnisti?
Jón Ólafsson spurði ég: Þú segir í bók þinni um ráðstjórnartengsl íslenskra sósíalista, að ekki sé ljóst af dagbókarfærslum Georgís Dímítrovs, hvað þeim Einari Olgeirssyni fór á milli, þegar Einar hitti hann í Moskvu í október 1945. En af dagbókinni sést glögglega, að þeir Dímítrov og Einar ræddu herstöðvabeiðni Bandaríkjanna, sem borist hafði í októberbyrjun, og innri málefni Sósíalistaflokksins íslenska. Hvað veldur þessari missögn þinni?
Svör framsögumannanna
Skafti nefndi í svari sínu ekkert dæmi um það, sem ég bað um, að Sósíalistaflokkurinn hefði í öðrum málum en afstöðunni til Júgóslavíu og Albaníu farið út af línu Kremlverja.
Guðni kvað ef til vill heppilegra að tala um valdatöku með góðu eða illu en nota hugtakið byltingu með góðu. (Það er auðvitað alveg rétt. Orðin í fundarboðinu voru bersýnilega skrifuð í flýti og vanhugsuð.)
Ragnheiður sagðist ekki kannast við þetta atvik úr rússneskum skjölum, sem ég nefndi, og vísaði því spurningunni til Jóns Ólafssonar.
Jón Ólafsson sagði, að Einar Olgeirsson hefði talað sem þjóðernissinni, þegar hann hefði beðið sendiherra ráðstjórnarinnar í ársbyrjun 1947 að flýta sér ekki að gera viðskiptasamninga við Íslendinga. Hann kvað það yfirsjón hjá sér, en ekki tilraun til að afveigaleiða lesendur, að hann skyldi ekki hafa fundið dagbókarfærslu Dímítrovs frá 1945 um það, að þeir Einar hefðu rætt saman herstöðvabeiðni Bandaríkjanna og innri málefni Sósíalistaflokksins.
Tóku nú við spurningar frá öðrum fundarmönnum og svör. Gekk það allt skaplega. Loftur Guttormsson sagnfræðiprófessor stóð upp og taldi nauðsynlegt að gera greinarmun á kommúnistaflokknum og Sósíalistaflokknum, en kvaðst ekki ætla að lesa bók mína. Guðni Th. Jóhannesson hvatti hann hins vegar til þess að lesa bókina, hann gæti áreiðanlega fengið hana lánaða á almenningsbókasafni, ef hann kærði sig ekki um kaupa hana.
Óvænt fundarlok
Þegar leið að fundarlokum, kvaddi sér hljóðs Guðmundur Jónsson sagnfræðiprófessor. Hann gekk að pallborði, þreif þar hljóðnema af frummælendum, tók sér stöðu á miðju gólfi og hóf ræðuhöld gegn mér, þar sem ég sat á fremsta áheyrendabekk. Hann kvað mig umfram allt pólitískan erindreka, en ekki fræðimann. Mér hefði orðið stórlega á í fyrri verkum mínum, eins og alþjóð vissi, og nú væri ég að reyna að fá uppreist æru með hinni nýju bók minni, sem væri umfram allt pólitískt verk, þótt hann hefði ekki lesið hana. Það væri ekki hlutverk Sagnfræðingafélagsins að veita mér slíka uppreist æru, svo að félagið hefði ekki átt að bjóða mér að halda framsögu fyrir skömmu á fundi sínum um misnotkun sögunnar, því að það væru einmitt menn eins og ég, sem misnotuðu söguna. Guðmundi var mikið niðri fyrir, á meðan hann flutti reiðilestur sinn. Skalf hann allur og titraði, og andlitið gekk í bylgjum, jafnframt því sem hann fölnaði og roðnaði á víxl. Ekki hækkaði hann þó róminn, svo að heitið gæti. Allan tímann starði hann á mig með uppglennt augu, svo að helst minnti á saksóknara í réttarhöldum í Moskvu, lafhræddan við Stalín, að lesa yfir sakborningi. Dauðaþögn var í salnum, á meðan Guðmundur talaði, og fóru eflaust sumir hjá sér, en aðrir kímdu á laun, og einhverjum hefur sennilega ekki þótt neitt ofmælt, sem hann sagði.
Ég bað þegar um orðið, þegar sagnfræðiprófessorinn þagnaði, og svaraði á þessa leið: Það er leitt, að þú skulir hvorki hafa lesið bók mína, Guðmundur, þótt þú teljir þig geta flokkað hana til pólitískra verka, né sótt fyrirlestur minn á dögunum, þótt þú fordæmir hann. Í fyrirlestri mínum hjá Sagnfræðingafélaginu fór ég meðal annars yfir það, hvað ég hefði lært af gagnrýninni á fyrsta bindi ævisögu minnar um Halldór Kiljan Laxness. Það er, að einn texti má ekki vera of nálægur öðrum texta úr heimild, þótt ég hefði að vísu verið þar í góðri trú, því að ég hefði lesið mikið lof um það, hvernig Laxness sjálfur hefði tekið texta og notað, til dæmis dagbækur Magnúsar Hjaltasonar í Ljósvíkingnum og frásagnir Ralphs Fox í smásögunni Temúdsjín snýr heim. Hitt, sem ég hefði lært, hefði verið að vitna oftar og betur í ýmis smáatriði, sem fræðimenn hefðu fundið inni á söfnum, enda væri sjálfsagt að sýna þeim virðingu, og yrðu ekki margir aðrir til þess.
Sú gagnrýni, sem beint hefði verið að fyrsta verki ævisögu Laxness, hefði ekki heldur komið fram gegn öðru og þriðja bindinu.
Síðan sneri ég mér að Guðmundi Jónssyni og spurði: Þetta hef ég nú lært af mínum mistökum. Hvað hefur þú lært af þínum?
Þá sleit fundarstjóri fundi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook