Glúrnar gamlar konur

Í ellefu hundruð ár hafa íslenskar konur helgað sig barneignum og heimilisstörfum, viljugar eða nauðugar, svo að miklu minna liggur eftir þær en karla í bókmenntum og sögu. Þrátt fyrir það lifir á vörum þjóðarinnar margvísleg speki roskinna kvenna.

Fyrsta dæmið, sem ég kann, er af Steinunni gömlu, frændkonu Ingólfs Arnarsonar, sem segir frá í Landnámu. Hún fór til Íslands og var með Ingólfi fyrsta vetur sinn. Hann bauð að gefa henni úr landnámi sínu Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun. Hún vildi hins vegar ekki þiggja landið að gjöf, heldur „gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum“.

Annað dæmi er frá 12. öld, þegar Ragna, húsfreyja í Rínansey, sagði við Orkneyingajarl, Rögnvald kala Kolsson: „Fár er svo vitur, að allt sjái sem er.“ Skýrari orðum hefur vart verið komið að skeikulleika manna.

Hin þrjú dæmin, sem ég nefni hér, eru frá öndverðri tuttugustu öld. Sigurður Nordal prófessor átti eitt sinn tal við ónefnda konu á Suðurlandi. Hún sagði um frambjóðanda til þings: „Hann verður áreiðanlega kosinn.“ Hvers vegna? „Hann er fyrir neðan öfundina.“

Sesselja Sigmundsdóttir, húsfreyja í Rauðbarðaholti í Dölum, bjó á gamals aldri hjá framsóknarmanninum Bjarna Jenssyni í Ásgarði. Þegar leið að þingkosningum 1923 spurði Bjarni: „Hvað ætlar þú að kjósa?“ Sesselja svaraði: „Ég kýs hann Bjarna frá Vogi.“ Bjarni var andstæðingur Framsóknarflokksins og í einu þeirra flokksbrota, sem síðar mynduðu Sjálfstæðisflokkinn. Bjarni mælti: „Er hann eitthvað betri en hinir?“ Sesselja svaraði: „Já, hann heilsaði mér. Hinum sást yfir það. Og þeim getur sést yfir fleira.“

Ingileif Steinunn Ólafsdóttir, húsfreyja á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði, hafði að orðtaki: „Sofðu, þegar þig syfjar, en vertu aldrei óvinnandi, meðan þú vakir.“ Hún var amma Kirkjubólsbræðra, sem kunnir voru á sinni tíð, Guðmundar Inga skáldbónda, Halldórs bindindisfrömuðar og Ólafs skólastjóra.

Inga Huld Hákonardóttir átti eitt sinn tal við frænku sína, Elínu Guðmundsdóttur frá Stóra-Hofi á Rangárvöllum, og hneykslaðist á bruðli stjórnmálamanna með almannafé. Elín svaraði: „Já, þeir eru fljótir að eyða því, sem þeir eiga ekki sjálfir.“

(Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 29. október og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins, sem er ómissandi á hverju menningarheimili.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband