27.10.2011 | 11:25
„Varð þó að koma yfir hann“
Fræg eru vísuorð Hallgríms Péturssonar í Passíusálmunum:
Þetta, sem helst nú varast vann,
varð þó að koma yfir hann.
Mér duttu þau í hug, þegar ég rakst í grúski mínu á tvö mál, sem eru að öðru leyti óskyld.
Halldór Kiljan Laxness gerði í Sölku Völku óspart gys að Hjálpræðishernum. Nú vildi svo til, að vorið 1938 kom Laxness við í Kaupmannahöfn á leið frá Rússlandi. Á fundi í stúdentafélaginu íslenska 11. apríl 1938 fór hann með þýðingu sína á kvæði eftir Kasakaskáldið Dzhambúl, þar sem eru meðal annars þessi vísuorð:
Stalín, þú ert söngvari þjóðvísunnar,
Stalín, þú ert hinn voldugi faðir Dzhambúls.
Þá dundi við lófatak. En einn stúdentinn stóð upp undir fagnaðarlátunum og læddist út, svo að lítið bar á. Hann var Ólafur Björnsson, síðar hagfræðiprófessor. Á leiðinni heim hristi hann höfuðið og tautaði fyrir munni sér, að þetta hefði verið líkast hjálpræðisherssamkomu, sem hann hafði eitt sinn sótt af forvitni á námsárum sínum á Akureyri.
Átti það, sem þótti hlægilegt við Hjálpræðisherinn, ekki við um Laxness líka?
Fleira hefur verið aðhlátursefni á Íslandi. Til dæmis skellihlógu íslenskir sósíalistar að kenningum Kristmanns Guðmundssonar um það, að starfsmenn póstsins hlytu að hnupla frá honum bréfum frá útlöndum. En eins og ég segi frá í Laxness, þriðja bindi ævisögu nóbelsskáldsins, höfðu fleiri áhyggjur af pósti en Kristmann. Halldór Kiljan Laxness skrifaði póststofunni í Reykjavík bréf sumarið 1948 og kvartaði undan því, að bréf til sín frá útlöndum hefðu verið opnuð og lesin. Póstmenn svöruðu fullum hálsi. Vísuðu þeir því á bug, að bréf skáldsins væru opnuð hér á landi, en bentu á, að sum bréfin væru frá löndum, þar sem tíðkaðist að skoða bréf, áður en þau væru framsend.
Átti það, sem þótti hlægilegt við kvartanir Kristmanns undan póstinum, ekki við um Laxness líka?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook