Kirkja fyrirfinnst engin …

Fyrir mörgum árum las ég snjalla ræðu eftir dr. Guðmund Finnbogason prófessor, sem flutt var í Hrafnseyrarrétt 3. júlí 1927. Hafði Guðmundur skipulag réttarinnar til marks um sjálfstæðisþrá Íslendinga og sjálfseignarhvöt. Þeir létu sér ekki nægja almenninginn, heldur vildu hafa skýr mörk, svo að mitt og þitt þekktist að. Þeir væru hræddir um, þegar ríkismarkið kæmi á hverja kind, að skammt yrði að bíða skýrslunnar: „Öll hús staðarins fallin. Kirkja fyrirfinnst engin. Kvígildi staðarins kveður prestur sig uppetið hafa.“

Síðar rakst ég á smásögu eftir Gunnar Gunnarsson frá árinu 1910 um prest, sem hefði verið sóknarbörnum sínum svo hjálpsamur í hallæri, að eignir staðarins, sem hann sat, hefðu eyðst. Hefði hann jafnvel höggvið kirkjuna niður í eldivið handa sóknarbörnum. Smásagan hét „Kirkja fyrirfinnst engin“. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi orti kvæði með sama heiti og um sömu sögu. Þar segir meðal annars:

Í þyngstu raunum reynast verkin betur

en ritningin og gamalt fræðaletur.

Fróðlegt er, að þeir Gunnar og Davíð skrifuðu af samúð með presti, en Guðmundur taldi framferði hans víti til varnaðar.

Hvaðan er sagan? Hvaða prestur var þetta? Hún bar allan blæ venjulegrar þjóðsögu, en ég fann hana ekki í neinu þjóðsagnasafni þrátt fyrir nokkra leit. Ég spurðist þá fyrir um hana hjá þeim margfróðu mönnum, sem sitja iðulega með mér að grúski í Þjóðarbókhlöðunni, en enginn þeirra var viss um, hvaðan sagan væri.

Eftir talsverða frekari eftirgrennslan komst þó einn fræðaþulurinn í Þjóðarbókhlöðunni að þeirri niðurstöðu, að sennilega væri sagan runnin af atviki, sem gerðist í Skagafirði í harðindum á níunda áratug nítjándu aldar. Árið 1887 kom séra Jón Hallsson prófastur að Hvammi í Laxárdal. Kirkjan var þá komin að falli og kúgildi staðarins öll horfin, en presturinn, séra Magnús J. Skaftason, á förum vestur um haf. Má lesa um þetta í óprentuðum prestasögum Sighvats Grímssonar í handritadeild Þjóðarbókhlöðu.

Botna verður söguna með því að upplýsa, að ný kirkja var reist í Hvammi 1892, en séra Magnús komst vestur um haf, þar sem hann gerðist prestur landa sinna og gat sér gott orð.

(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út 2010, en hann birtist í Morgunblaðinu 15. október 2011.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband